Samsýning Félags Íslenskra samtímaljósmyndara á Höfn í Hornafirði til 13. ágúst.

aa

Nú í  sumar verður opin samsýning Félags Íslenskra samtímaljósmyndara í Miklagarði á Höfn í Hornafirði.  Á sýningunni verða nýleg verk ásamt verkum í vinnslu eftir 22 ljósmyndara í FÍSL og því frábært tækifæri til að sjá hvað er að gerast í íslenskri samtímaljósmyndun í dag.

Á opnuninni  þann 23. júní, kl. 16.00 munu Biggi Hilmars og María Kjartans flytja nokkur lög af plötu sinni sem væntanleg er síðar í sumar en María á auk þess verk á sýningunni.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni  sem  hefur yfirskriftina FÍSL2017 eru: Anna Elín Svavarsdóttir, Bjargey Ólafsdóttir, Bragi Þór Jósefsson, Charlotta María Hauksdóttir, David Barreiro, Einar Falur Ingólfsson, Hallgerður Hallgrímsdóttir, Sigga Ella, Heiða Helgadóttir, Skúta, Inga Sólveig, Ingvar Högni Ragnarsson, Jóna Þorvaldsdóttir, Katrín Elvarsdóttir, Kristín Hauksdóttir, María Kjartans, María Kristín Steinsson, Rúnar Gunnarsson, Sigurður Mar, Spessi, Vigdís Viggósdóttir og Þórdís Erla Ágústsdóttir.

Sýningin verður opin til 13. ágúst 2017.

Við hvetjum alla sem leið eiga til Hafnar að kíkja við í Miklagarði og sjá þessa sýningu.

Myndin sem fylgir færslunni er úr þeirri seríu sem Sigga Ella sýnir en hún ber nafnið JÓHANNSSON. Þar er um að ræða protrett af fjórum bræðrum sem allir eru fæddir á Langanesi á árunum 1948-1959. Þrír bræðranna hafa verið sjómenn nær allt sitt líf en einn þeirra er bóndi.

Sigga Ella hefur ekki síst lagt áherslu á að ljósmynda fólk en viðfangsefni hennar hafa verið margbreytilegir hópar: tónlistarfók, heilu hljómsveitirnar, fólk með Downs heilkenni og meðlimir Baldvins, félags fólks með Alopecia.

Sigga Ella útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum árið 2014 og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín og sýnt þau bæði hér heima og erlendis. Hún hefur gefið út tvö bókverk; Bloodgroub (2014) og Fyrst og fremst er ég (2016). Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu hennar og þar er einnig hægt að sjá fleiri verk Siggu Ellu.

Samhliða sýningunni á Höfn var gefin út sýningarskrá með yfirliti yfir þá listamenn sem þar sýna og verk þeirra.

Við umfjöllun um verk Siggu Ellu er meðal annars að finna þetta ljóð eftir Guðjón Hauksson sem ber heitið

JÓHANNSSON

Rúnum ristir, greyptir í stein

Reyndir af lífsins skaki.

Traustir, hraustir, harðir sem bein

Hertir í stormsins hraki.

Mildir drengir, mjúkir í raun

Meyrir af lífsins gæðum.

Sáttir bræður með sæmd og laun,

Sómamenn allir í hæstu hæðum.

Guðjón Hauksson.

/sr.