Eitt það undarlegasta við að vera manneskja er að við sjáum sögur alls staðar. Öll veröld okkar er full af sögum og við notum sögur til að skilja veröldina og okkar eigið líf. Jafnvel einföldustu hlutir eða augnablikssvipbrigði á ókunnugu andliti geta kveikt sögur í huga okkar, sannar eða tilbúnar. Heiða nýtir sér þetta í þremur myndapörum af konum og hlutum sem ímyndunaraflið umbreytir í útlínur af sögum.

Tvær konur, önnur ung en hin gömul, klæddar í svart og við svartan bakgrunn, vekja tilfinningu fyrir gömlum þjóðsögum og ævintýrum. Í kringum þær eru alls kyns tákn og þær birtast eins og erkitýpur, fornu frummyndirnar sem koma fyrir aftur og aftur í öllum sögum mannfólksins.

Ung hvítklædd kona horfir beint í myndavélina og tínir annars hugar laufblað af plöntunni sem hún heldur á. Við hliðina á portrettinu er mynd af páfuglsfjöður í vasa á stöpli.

Tvær myndir sýna unga konu með bækur og við eltum ímyndunarafl hennar yfir síðurnar um leið og við reynum að átta okkur á sögu hennar, því hún, eins og við öll, á sér sögu.

Texti: Jón Proppé