Sissa Ólafsdóttir skólastjóri Ljósmyndaskólans – Að nota myndavélina sem það tjáningarform sem hún er.

aa

Sissa Ólafsdóttir, ljósmyndari, hefur verið skólastjóri Ljósmyndaskólans frá upphafi. Ég spurði hana nokkurra spurninga um námið í skólanum, ljósmyndun og hvað felst í því að vera ljósmyndari.

Námið í Ljósmyndaskólanum hefur breyst talsvert undanfarin ár. Hvert er skólinn að þróast?

Jú, það er rétt, skólinn hefur breyst talsvert síðan ákvörðun var tekin um að færa áhersluna yfir á ljósmyndun sem list. Það að læra að nota myndavélina sem tjáningarmiðil í listsköpun þarfnast mikillar æfingar, bæði tæknilegrar og fagurfræðilegrar.

Hverjir eru þá áhersluþættir námsins núna?

Fyrir utan það að kenna á ljósmyndatæknina sjálfa og þann búnað sem það krefst þá eru það ekki síst aðferðir við hugmyndavinnu, sköpun og greiningu myndverka en svo er líka nauðsynlegt að þjálfa vinnulag og gagnrýna hugsun á eigin verk og annarra.  Grunnurinn þar er meðal annars þekking á hugmyndum og kenningum, lista- og ljósmyndasögu. Vægi allra þessara þátta hefur verið aukið í náminu.

Kannski má segja að ein grundvallarforsendan sé þó sú að við leggjum áherslu á það að nemendur reyni að finna út hvað þeir vilja segja með miðlinum og til hvers þeir vilja nota hann. Hverju vilja þeir miðla? Það kallar á mikla ögun og þjálfun að láta myndina eða myndirnar tala og koma því til skila sem þú vilt koma á framfæri eins og ég sagði fyrr. Þannig að fyrir utan það að kenna tæknileg grundvallaratriði og það að beita tækniþekkingunni á skapandi hátt þá leggjum við mikla áherslu á að nemendur greini eigin ætlanir og markmið með notkun miðilsins. Varðandi það er afar mikilvægt að skrifa texta og að greina eigin verk og annarra fyrir utan svo auðvitað og lesa og skoða bækur um ljósmyndun og ljósmyndara. Það er afar nauðsynlegt. Og af því að ég var að tala um mikilvægi þess að kenna á tæknina og að nota hana til þess að byrja að skapa þá má kannski geta þess að eins og er,  þá er  mjög mikil áhersla á hefðbundnari þætti ljósmyndunar eins og filmuna. Það að mynda á filmu er núna mjög ríkjandi aðferð innan ljósmyndunar sem listforms. En það er einfaldlega ein nálgun á það að búa til mynd.  Svona listnám snýst um að búa til myndir, koma því á framfæri sem þú vilt segja frekar en að vinna verk fyrir einhvern tiltekinn aðila. Að nota myndavélina sem það tjáningarform sem hún er. Svo eru auðvitað fleiri fletir á þessu máli. Hvernig viltu koma þínu efni á framfæri? Hvaða form birtingar ætlar þú að nota? Eru það prent, bókverk eða einhver annar birtingarháttur? Það eru margir möguleikar sem hægt er að nota til að miðla.

 

  

Eru einhverjar fyrirmyndir að þessu breytta fyrirkomulagi á náminu ?

Við höfum leitað að fyrirmyndum um nám með þessar listrænu áherslur til skóla erlendis. Við Ljósmyndaskólann kenna svo margir þeirra ljósmyndarar sem fást við ljósmyndunina sem listmiðil hér á Íslandi. Þeir koma allir úr námi erlendis og frá mismunandi og mjög ólíkum skólum. Í þessum breytingum höfum við nú ekki síst tekið mið af þeim farangri sem þeir bera með sér og leitað álits hjá þeim og eftir hugmyndum um áherslur.

Það er mjög mikilvægt að til sé íslenskur listaskóli sem kennir ljósmyndun og að fólk hafi tök á að fást við hugtök og orðræðu sem tengjast ljósmyndun sem list á eigin tungumáli. Það skiptir mjög miklu máli, bæði fyrir einstaklingana að fá að tjá sig um það sem þeir eru að gera á eigin máli en líka fyrir framgang greinarinnar – ljósmyndunar. Það skiptir máli varðandi það að hún eignist hér sess í menningu okkar.

Þessi áhersla er þá í takti við þróun ljósmyndunar sem listgreinar út í hinum stóra heimi?

Já, ljósmyndunin hefur verið að þróast sem viðurkennt samtímalistform lengi, eiginlega alveg frá því upp úr 1970 og hún er í dag ein megin stoða samtímalista. Það er staðreynd og eðlilegt að menntakerfið taki mið af því sem er að gerast í umhverfinu og svari kalli tímans. Áður fyrr var ljósmyndun kannski fyrst og fremst mikið afmarkaðra fyrirbæri t.d. eins og iðnaðarljósmyndun sem er góð og gild sem slík en ljósmyndun sem grein hefur bara í tímans rás stækkað og þróast í að verða eitthvað svo miklu, miklu meira. Hún spannar mun víðara svið nú en fyrir nokkrum áratugum.

 

Ljósmyndaskólinn útskrifar nemendur með diploma. Hvað gera þeir sem útskrifast úr Ljósmyndaskólanum að námi loknu?

Það er nú býsna fjölbreytt hvaða leiðir nemendur fara að loknu námi. Margir vinna sem listamenn og helga sig þessum tjáningarmiðli.  Þegar þú býrð til listaverk ertu ekki að vinna fyrir einhvern utanaðkomandi heldur er markmiðið að koma á framfæri því sem þú vilt miðla og telur að skipti máli. Margir taka að sér ýmis störf tengd ljósmyndun; eru að kenna, mynda fyrir aðra, gera plötualbúm,  vinna fyrir tímarit eða dagblöð. Sumir útskrifaðra nemenda kjósa að starfa við eitthvað annað og sumir vinna hlutastarf til þess að framfleyta sér en hafa ljósmyndun sem hluta af sínu lífi með einhverjum hætti. Það eru engir tveir ljósmyndarar eins. Ég hvet nemendur alltaf til að skoða hvað þeim finnst skemmtilegast að gera. Þar liggur styrkur þeirra og ástríða. Þar eru líka mestar líkur á því að ná árangri.

Kannski heilt yfir má segja að yfir 80% útskrifaðra nemenda Ljósmyndaskólans vinnur við ljósmyndun með einhverjum hætti en ég held að markmið okkar allra sé auðvitað að vinna alfarið við ljósmyndun, að vera listamenn í fullu starfi.

Með viðtalinu fylgja myndir úr skólalífinu.

/sr.