Skapandi ljósmyndun á Íslandi hefur tekið gríðarstórt stökk á 20 árum.

aa

 

Við Vogaafleggjarann, 2007. Úr verkefninu Reykjanesbrautin.

Eftirfarandi viðtal við Einar Fal verður í Vorblaði skólans sem út mun koma í lok mánaðarins. Blaðið er stútfullt af efni; myndum af verkum nemenda, viðtölum við núverandi og fyrrverandi nemendur, kennara skólans… svo nokkuð sé nefnt. En hér kemur viðtalið við Einar Fal.

Jæja Einar Falur. Hvað er það sem þú kennir við Ljósmyndaskólann?

„Þetta er erfið spurning…ég hef nú kennt ýmislegt hér í gegnum árin en fyrst og fremst má segja að það sem ég kenni sé einkum þrennt. Það er ljósmyndasaga; saga ljósmyndunar frá upphafi og fram í samtímann og svo líka stefnur og straumar í samtímaljósmyndun. Það er mjög mikilvægt fyrir alla þá sem eru að fóta sig í listrænni ljósmyndun í dag að skilja hvað verið er að gera merkilegt í slíkri ljósmyndun annarsstaðar og ég reyni í áfanganum að veita innsýn í þann heim. Þar fyrir utan kenni ég áfanga í myndbyggingu og formfræði og svo kenni ég einnig vinnustofu um persónulega heimildaljósmyndun. Það er svolítið mótsagnakennt heiti í sjálfu sér því að í orðinu heimildaljósmyndun felst að sá sem er að mynda sé að skrásetja einhverjar staðreyndir í umhverfinu en um leið og þú bætir við orðinu persónuleg þá ertu að gera þetta huglægt. En þá er viðkomandi að fást við að skrásetja sitt nánasta umhverfi, jafnvel út frá sínum tilfinningum og persónulegum upplifunum sem getur verið mikil áskorun fyrir nemendur.“

En nú veit ég að þú gerir líka ýmislegt annað og að þetta er þegar búið að vera býsna stórt ár hjá þér, þú ert með margar sýningar víða um lönd. Viltu segja mér aðeins frá því?

„Síðustu þrjú árin hef ég verið að vinna stórt verkefni þar sem ég hef verið að mynda út frá teikningum sem danskur listamaður, Johannes Larsen gerði á Íslandi sumrin 1927 og 1930. Hann hefur verið fararstjóri minn um Ísland þessi síðustu þrjú árin í stóru og marglaga verkefni þar sem ég myndaði á stóra blaðfilmu myndavél. Hann kom til landsins til að teikna myndir af sögustöðum Íslendingasagnanna. Ég nota ferðalag hans sem innblástur og til að skapa ramma um verkið. en geri svo mína útgáfu af myndum af Íslandi í dag og þar er í forgrunni ýmislegt sem er ofarlega á baugi eins og til dæmis ferðamannastraumurinn sem er viðgangsefnið í mínum verkum. Ég hef verið að vinna úr þessu efni síðasta árið og í vetur sem leið opnaði stór sýning í safni Johannesar Larsen í Danmörku. Þar voru sýndar myndirnar mínar ásamt teikningum hans og uppistaðan í þeirri sýningu verður svo sumarsýning Hafnarborgar nú þetta sumarið. Ásamt þessu kemur út bók um þetta verkefni sem er þá þriðja birtingarmyndin af verkinu. Síðan verða í haust í Þýskalandi tvær aðrar sýningar sem byggja á þessu sama verki og öðru sem ég vann fyrir nokkrum árum og heitir Sögustaðir – Í fótspor W.G. Collingwoods. Ég set saman sýningar þar sem ég steypi þessum tveimur verkum saman. Svo var að ljúka sýningu í Listasafninu á Akureyri. Það var annað verkefni sem ég að grunninum til setti saman fyrir gallerí í Basel fyrir um tveimur árum. Þannig að þetta er annasamur tími svona samhliða því að ég rek menningardeildina á Morgunblaðinu.“

Sannarlega margt á döfinni hjá þér … sem leiðir yfir í næstu spurningu. Finnst þér ljósmyndun á Íslandi hafa breyst síðustu áratugina og þá hvernig? Hér er ég kannski fyrst og fremst að tala um listljósmyndun.

„Ljósmyndun já, – það sem kallað er skapandi ljósmyndun á Íslandi hefur tekið alveg gríðarstórt stökk á svona 20 árum. Það kemur margt til. Í fyrsta lagi hefur einstaklingum í þessum geira, skapandi ljósmyndunar fjölgað gríðarlega og þar kemur til að fólk hefur verið í auknu mæli að sækja sér menntun. Sumir til útlanda og sumir hingað í skólann og við sjáum þess stað, það er ekki spurning. Fólk innan þessa geira hefur ólík áhugamál sem er gott. Sumir fást við landslag og umhverfi á nýjan og ferskan hátt á meðan aðrir eru að fást við mannlífið eða hugmyndir sínar um lífið á einhverskonar huglægan hátt. Það eru svo margar leiðir til þess. Skilningur í umhverfinu fyrir ljósmyndun hefur líka breyst og aðstæður batnað stórlega. Þar kemur náttúrulega inn að við lifum í breyttum heimi. Fólk fær upplýsingar eftir svo ólíkum leiðum og sér hluti víðar og í ólíkum fjölmiðlum. Ljósmyndarar hafa líka farið að starfa meira saman sem er mjög af hinu góða, samstaðan er mikilvæg því saman getur fólk breytt heiminum sem einstaklingurinn á aftur erfitt með að gera. Þannig að ég held að það sé margt gott í íslenskri samtímaljósmyndun og margt forvitnilegt, þrátt fyrir að það séu líka ýmsir gallar sem koma fram til að mynda vegna smæðar samfélagsins, en verðum við ekki að segja það að það sé bara eðlilegt.·“

Ég var með eina spurningu í viðbót en þú komst reyndar aðeins inn á þetta í svari þínu hér áðan. Breytir ljósmyndun heiminum?

„Sko, ljósmyndavélin er skrásetningartæki og það er mikilvægt að gleyma því aldrei. Það er bara sá sem heldur á henni sem getur gert eitthvað, eftir því hvernig hann beitir þessu tæki, en það er ekki spurning að ljósmyndamiðillinn getur hjálpað okkur að skilja heiminn, getur kennt okkur að átta okkur á veruleikanum, á göllum heimsins en líka kostunum og um leið getur hann aukið skilning okkar og kennt okkur að meta heiminn betur.“

Einar Falur Ingólfsson lærði ljósmyndun í School of Visual Arts í New York en hefur auk þess BA-gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur lengi unnið sem ljósmyndari, myndstjóri og blaðamaður á Morgunblaðinu en einnig sinnt listgrein sinni, ljósmyndun, með margvíslegum hætti, verk hans hafa verið sýnd víða, hann hefur verið sýningarstjóri að ljósmyndasýningum, ritstýrt eða komið að gerð ljósmyndabóka, sjálfur skrifað bækur, kennt áfanga í ljósmyndun við hina ýmsu skóla og haldið fyrirlestra víða um heim. Út hafa komið bækur með verkum hans. Einar Falur er félagi í FÍSL, Félagi íslenskra samtímaljósmyndara og hann er kennari við Ljósmyndaskólann.

/sr.