“Slæmur félagsskapur” í Marshallhúsinu!

aa

 

1-arni_skjo-l

Nú er komið að því að því að Kling & Bang  flytji sig af moldargólfinu á marmarann eins og segir í fréttatilkynningu frá þeim. Laugardaginn þann 18. mars 2017 opna Kling & Bang stolt dyrnar að nýju rými á 3. hæð í Marshallhúsinu með sýningunni Slæmur félagsskapur. Sýningin er samsýning átta listamanna sem eru að hasla sér völl á myndlistarsviðinu. Þau hafa komið úr listnámi á síðustu þremur árum, en flest þeirra útskrifuðust í fyrra. Einhvers konar úrval úr hinni kraftmiklu ungu Reykjavíkursenu. Listamennirnir vinna í ólíka miðla og gefst því sýningargestum kostur á að sjá gjörninga, málverk, skúlptúra og video.

Listamennirnir eru: Árni Jónsson, Ásgerður Birna Björnsdóttir, Berglind Erna Tryggvadóttir & Rúnar Örn Marinósson, Hrefna Hörn Leifsdóttir & Sarah Rosengarten, Leifur Ýmir Eyjólfsson og Melanie Ubaldo.

Sýningin stendur frá  18. mars til 15. apríl 2017. Á sýningartímanum munu verða ýmsar uppákomur tengdar sýningunni. Nánar má sjá um það allt á heimasíðu Kling & Bang. Þar segir einng að galleríið var stofnað af tíu myndlistarmönnum í byrjun árs 2003 og hefur það allar götur síðan verið listamannarekið gallerí (non profit). Stefna þess er að sýna myndlist sem ögrar “samhengi og innihaldi skapandi hugsunar.”  Starfssemi gallerísins hefur vakið heimsathygli enda hefur þar verið lögð  áhersla á að bjóða upp á vettvang fyrir framúrskarandi sýningar og tilraunamennsku, ólíkra listamanna.

Marshallhúsið er ný miðstöð myndlistar í Reykjavík, þar sem Kling & Bang, Nýlistasafnið og Stúdíó Ólafur Elíasson hafa aðsetur. Einnig verður starfræktur veitingastaður og bar í húsinu.

/sr.