Ljósmyndarar feta einstigi milli veruleikans og tilbúnings. Ljósmyndir fanga lífið í augnablikinu en um leið er ljósmyndin flókið tæknilegt ferli þar sem ljós er skráð á tvívítt yfirborð með aðstoð linsu og alls kyns tæknilausna.

Myndir Daníels fjalla um þessar þversagnir og hann sýnir okkur hvernig raunveruleikinn og ljósmyndin eru tvær hliðar á sama pening. Hann notar hveravatnið (táknmynd óstöðugrar náttúrunnar á Íslandi) og umbreytir því í rannsókn á eðli ljóss og lita. Þegar hveravatnið gufar upp af glerplötu skilur það eftir sig sölt og önnur ólífræn efnasambönd.

Daníel varpar ljósi gegnum þessar plötur, ýmist hvítu eða lituðu, og skrásetur það. Afurðin er abstrakt mynd, fínlegt spil litbrigðanna, sem er að hluta tær birta en líka grjótharður efnisveruleiki.

Texti: Jón Proppé