Sólveig M. Jónsdóttir: Hún hélt ég væri að sækja um kennarastöðu.

aa

 

Hún hélt ég væri að sækja um kennarastöðu.

Sólveig M. Jónsdóttir er nemandi á öðru ári í Ljósmyndaskólanum. Hún starfaði sem leiðsögumaður í yfir 20 ár en er einn þeirra nemenda sem dag einn ákvað að breyta til og hefja nám í Ljósmyndaskólanum. Hún býr í Þórkötlustaðahverfinu, rétt austan Grindavíkur og hefur markvisst notað það nærumhverfi sem viðfangsefni í námsverkefnum sínum.

Hver er ástæðan fyrir því að þú söðlaðir svona rækilega um í lífinu og fórst í Ljósmyndaskólann Sólveig?
„Já ég hef nú í rauninni hugsað um ljósmyndun mjög, mjög lengi, keypti mína fyrstu vél þegar ég var tvítug og fór þá til Afríku og tók myndir. Svo bara einhvernvegin tók lífið yfir en ljósmyndunin blundaði alltaf í mér. Ég er leiðsögumaður og á þeim vettvangi hef ég mikið farið með ljósmyndara í ferðir. Ég keypti mér einhvern tímann eina af þessum litlu léttu vélum sem mér fannst þægilegt að hafa með í ferðum, því hún var alltaf þarna þessi þrá til að taka myndir. Var reyndar búin að leita dálítið að möguleikum til að læra ljósmyndun. Vissi af Iðnskólanum en það var ekki alveg það sem mig langaði. Vissi ekki af Ljósmyndaskólanum fyrr en ég datt inn á sýningu hér af því ég þekkti hana Grímu, sem var einn af nemendunum sem var að sýna. Þá bara áttaði ég mig á því að þetta var raunhæfur möguleiki. Anna konan mín ýtti mér í það að sækja um og allt í einu stóð ég inn á skrifstofu hjá Sissu … hún hélt ég væri að sækja um kennarastöðu.“ Sólveig hlær dátt. „En ég sagði nei, … mig langar að sækja um námið og svo gekk allt eftir og ég var allt í einu komin inn í skólann. Í rauninni finnst mér ég hafa byrjað á réttum enda með því að fara í skólann. Ekki síst í ljósi þess sem ég er vinna að í þessu stóra verkefni um Þórkötlustaðahverfið. En það var sko þannig að sama dag og ég sótti um skólann keypti ég mér lítinn sendibíl, svona L300 og var með plan um að ferðast um landið í tvö ár og mynda, – taka myndir af skemmtilegum karakterum, reyna að kynnast samfélaginu á hverjum stað og fólkinu sem þar býr. Að reyna að draga upp mynd af samfélaginu á ólíkum stöðum og að deila henni með öðrum. Kannski var þetta að einhverju leyti sprottið af því að ég hef ferðast mikið með fólk um landið og mig langar allaf svo mikið til að vera lengur á hverjum stað. En þegar ég komst inn í skólann hugsaði ég, – best bara að gera þetta í réttri röð, afla mér fyrst þekkingar og reynslu, ná tökum á ljósmyndun og geyma þetta verkefni með ferðalagið um landið aðeins lengur.“

Þá liggur nú beint við að spyrja. Hefur námið staðist þessar væntingar þínar?

„Já námið hefur staðist væntingar mínar … svo sannarlega og meira til. Ég held ég sé búin að læra miklu meira en ég hélt að ég myndi læra en ég kannski gerði mér ekki alveg fulla grein fyrir því fyrirfram hvað ég væri að fara út í. Við kynnumst mörgu hér og ólíkum nálgunum á ljósmyndun, t.d. í gegnum landslag, heimildaljósmyndun…já og allar þessar ólíku vinnustofur sem ég er búin að fara í gegnum um í náminu, þær hafa gefið mér svakalega mikið. Neita því ekki að sumar þeirra hafa verið býsna erfiðar og tekið á en það er bara mjög gaman og lærdómsríkt. Ég held ég hafi bara ekki gert mér grein fyrir þessu öllu saman fyrirfram. Minnir að ég hafi bara vitað að í byrjun námsins væri farið í myrkraherbergisvinnu og mér fannst það spennandi.·“

Notar þú stafræna tækni eða filmu?

„Mér finnst filman rosalega skemmtileg og ég hef þá þekkingu en ég hugsa að ég muni nú meira nota stafrænt í framtíðinni, ég er nefnilega svo óþolinmóð“ segir Sólveig og hlær við.

Nú veit ég að í gegnum allt námið þitt hefur þú staðfastlega unnið að ákveðnu verkefni. Segðu okkur aðeins frá því.

„Það er rétt , það má vissulega segja það. Ég bý í litlu þorpi rétt austan við Grindavík sem heitir Þórkötlustaðarhverfið, þar eru um 14 hús sem búið er í. Það sem ég hef verið að gera er að mynda þetta hverfi og íbúana, – mig langar að klára þetta verkefni. Ég er búin að mynda þarna mikið og fara aftur og aftur og ná þannig nýjum skotum og sjónarhornum og betri og betri myndum. Ég kýs að kalla þetta verkefni Þorpið, mér finnst það fallegt nafn. Þórkötlustaðarhverfið er eitt fárra þorpa í þessari mynd. Það eru ekki lengur mörg sambærileg þorp til á Íslandi, svona byggð er að hverfa og mig langar að skrásetja þetta fyrir komandi kynslóðir. Þórkötlustaðarhverfið á langa sögu og þarna hefur verið búseta frá örófi alda. Þetta svæði þarna við voginn tilheyrir allt Grindavíkurbæ núna en það eru heimildir um að á þessu svæði hafi lengi verið þrír bæir; Staður, Járngerðarstaðir og Þórkötlustaðir. Bærinn Grindavík stendur í landi Járngerðarstaða og á einhverjum tímapunkti var höfnin byggð upp þeim megin. Á Stað er ekki byggð lengur en þar eru golfvöllurinn og kirkjugarðurinn. Grindavíkurbær hefur fengið styrk til þess að gera verndaráætlun fyrir Þórkötlustaðarhverfið. Í því felst vilji bæjaryfirvalda til að varðveita sögu og einkenni svæðisins sem er afar gott. Þetta hefur það í för með sér að farið verður, nú í vor og sumar, í að skrásetja og mæla upp minjar og gerð verður könnun á húsunum sem þarna eru.“

Er þetta bókverk eða hvernig sérðu fyrir þér að birta þetta verk?

„Mig langar auðvitað að geta gert þetta að bókverki og gaman væri ef það gæti komið út í janúar á næsta ári, þegar ég útskrifast en mig langar auðvitað líka til að sýna þetta verk og það eru nú svosem ýmis tækifæri varðandi það líka.“

Ég hjó eftir því að þú sagðist endurtekið hafa farið á sömu staði til að ná myndum, ertu þá að segja að í endurtekningunni felist galdurinn varðandi svona verkefni?

„Já það held ég, þegar maður er búin að taka myndirnar og fer yfir þær og skoðar þá er auðveldara að sjá fyrir sér ákveðna ramma og að átta sig á því hvað er hægt að gera betur. Með því að fara aftur og aftur og endurgera þá verður maður betri og nær betri tökum á viðfangsefninu, – það er nú bara þannig. Það gildir vissulega að vera þrautseigur varðandi svona verkefni en mér liggur mjög mikið á. Það breytist allt svo hratt og þarna er fólk sem hætta er á að missa af, – vil þó taka fram að það býr fólk á öllum aldri í Þórkötlustaðarhverfinu. En þessi skrásetning mín er svolítið kapphlaup við tímann að einhverju leyti.“

Ertu með einhverjar hugmyndir um hvernig þú nýtir námið í framtíðinni?   

„Já sé nú eiginlega fyrir mér að geta gert það á tvennskonar máta. Mig langar að halda mig við heimildaljósmyndun eða þessa skrásetningu og sé alveg fyrir mér að ég muni fara ferðina í útlegðina … bara ég, í bílnum með myndavélina og hundinn. En eins og ég sagði áðan þá er ég líka leiðsögumaður og hef reynslu af ferðum um landið með ljósmyndara. Mér finnst það gaman og þar hef ég þolinmæðina. Finnst allt í lagi að eitt stopp geti tekið fjóra klukkutíma, að fara af stað eldsnemma á morgnana og allt annað sem fylgir slíkum ferðum.

Ég er núna að vinna í því að skipuleggja ferðir með ljósmyndara en markmiðið er að hafa þær kannski ekkert alltof margar á ári samt svo það verði tími fyrir hvorutveggja.“

 

 

 

/sr.