Sólveig M. Jónsdóttir – Minn trúður er leiður.

aa

_dsc4716-edit-copy-2

Myndina af trúðnum á forsíðu skólans, vann Sólveig í vinnustofum hjá Katrínu Elvarsdóttur fyrr í haust. Sólveig segir að hugmyndin að baki verkinu hafi verið að vinna með einhverskonar uppstillingu tengda leikhúsi og gjörningi og hún hafi valið þessa úr nokkrum hugmyndum sem hún setti niður á blað.

Hún segir annars þetta um tilurð verksins:

“Ég komst á snoðir um nýlega frétt af trúðum sem ég skoðaði áður en ég fór í stúdíóið. Hún var á þá leið að einhverjir höfðu klætt sig í trúðabúning og höfðu meðal annars verið að áreita börn og að eftir það hafa trúðar verið ofsóttir  víða og fólk varað við að klæðast trúðabúningum. Minn trúður er afar leiður og hræddur. Áður en ég lagði af stað í þetta verkefni þá fletti ég í gegnum nokkrar bækur og ætli Cindy Sherman hafi ekki haft áhrif á mig í þetta sinn. Vissi af henni en hafði ekki áður skoðað hana svona vel.”

Sólveig segir einnig að heimildaljósmyndun heilli hana mest þessa stundina og nefnir til ljósmyndara eins og Rimaldas Viksraitis og Richard Billingham sem áhrifavalda. Einnig segist hún vera afar hrifin af hollenska ljósmyndaranum Rineke Dijkstra og verkum hennar. Hún segir þó að hún geti vel nefnt fleiri mjög ólíka ljósmyndara og listamenn sem hún dáist að og veiti henni innblástur; Jeff Wall, Shephen Shore, Joel Stenfeld, Pétur Thomsen, Sigurð Guðmundsson, Richard Avedon, og Malick Sidibé, svo einungis nokkrir séu nefndir.

En hvernig var upplifunin af því að taka þátt í vinnustofu sem þessari?

“Þetta var fín vinnustofa margt nýtt sem kom fram og sumt afar áhugavert. Í samvinnu við kennarann var ákveðið að ég skyldi fara nýjar leiðir og prófa, í þessu verkefni, eitthvað allt annað en ég hef gert áður. Fæðingin var löng og ströng sem hefur eiginlega ekki gerst áður því oftast poppa hugmyndir um hvernig ég leysi verkefni upp í kollinn á mér strax en ekki í þetta sinn.  Ég fór langt út fyrir þægindarammann; var ein í stúdíóinu að brölta, hlaupa fram og til baka og skipta um föt og prófa ýmislegt. En ég hafði mjög gott af þessu. Það hefur margt komið mér á óvart eftir að ég byrjaði í skólanum og ýmislegt hefur vikilega vakið áhuga minn sem ég hafði jafnvel ekki leitt hugann að áður þannig að aldrei að vita hvað maður kastar sér út í næst.” segir Sólveig að lokum.

Á Facebókar síðu Sólveigar má sjá myndir eftir hana:  solveig.m.jonsdottir og  einnig á Instagram: solveig.jonsdottir

/sr.