Spessi – 111 – útgáfa bókar og sýning í Rýmd.

aa

Spessi – 111 í Rýmd og á bók.

Ljósmyndasýning Spessa 111 stendur í Rýmd, Völvufelli 13,  til 17. júní næstkomandi. Sýningin er hluti af Listhátíð í Reykjavík. Opið er í Rýmd, fim-sun kl. 14:00-17:00. Komin er út bók með sama nafni.

Breiðholtið og stoltir íbúar þess birtast í öllum sínum fjölbreytileika í nýrri röð ljósmynda eftir Spessa sem sýndar eru í galleríinu Rýmd í Völvufelli 13. Þetta eru ljósmyndir sem allar eru teknar í  póstnúmerinu 111. Bera portrettin af fólki  það með sér að Spessi hefur komist í mikla nálægð við þann fjölbreyttan hóp fólks sem byggir Efra Breiðholtið. Hann myndar eymd og eiturlyf,   unglinga í íþróttum og ráðsetta eldri borgara, allan skala mannlífsins í hverfinu og líkt og segir á vef  Listahátíðar þá er hér á ferðinni  örsaga kynslóða í hverfi sem á margan hátt er óvenjulegt í borginni.

Á vef hátíðarinnar segir einnig um sýninguna: „Í portrettmyndum Spessa er engu líkara en viðfangsefnið, umhverfið og væntingar ljósmyndarans renni saman í eina órofa heild. Hann veit að hverju hann leitar en er ekki alveg öruggur um hvað hann fær. Eftirvæntingin skilar sér í einhvers konar undarlega settlegri óvissustemningu.“ E.G.

Jafnhliða opnun sýningarinnar kom út samnefnd bók; 111, og eru þar ljósmyndir Spessa og bráðfínn og upplýsandi texti meðal annars um verkefnið, aðferðafræði ljósmyndarans og samhengi  verksins við ljósmyndasöguna eftir Æsu Sigurjónsdóttur og Mika Hannula.

Bókin er útgefin af JPV útgáfu og er fáanleg í öllum betri bókaverslunum og er á vægu verði! Látið ekki happ úr hendi sleppa!

Spessi var föstudagsgestur í Síðdegisútvarpinu 1. júní og hægt er að hlusta á viðtalið við hann hér. Þar segir hann meðal annars að hann hafi alltaf unnið í svona seríum en að þetta verkefni hafi byrjað þegar að Unnsteinn úr Retro Stefson hafi kynnt hann fyrir Louis frænda sínum sem býr í Efra Breiðholti. „Hann tók mig á rölt um hverfið og við hittum vini og kunningja hans og ég bið um að fá að taka myndir af þeim.“ Þá hafi hann meðal annars kynnst krökkum sem æfa fótbolta með hverfisliðinu. „Leiknir er svolítið eins og vonin og hjartað í Breiðholtinu sem allir geta sameinast um,“ segir Spessi í viðtalinu við Síðdegisútvarpið.

í Fréttablaðinu þann 16. júní 2018 (bls. 46) var stutt en fróðlegt viðtal við Spessa – 111 er hugarástand. Þar segir hann meðal annars að hann hafi í raun alltaf verið að fást við  jaðarmenningu eða það sem ekki hefur sterka rödd og að fyrir þremur árum hafi hann ákveðið að vinna með Breiðholtið, – svona Breiðholt séu til út um allan heim.

.

Spessi er einn af kennurum Ljósmyndaskólans og hefur raunar kennt ýmsa áfanga við skólann frá upphafi hans.

/sr.