Spjall við Kristinu Petrošiutė

aa

Það er ekta gluggaveður um miðjan apríl þegar tíðindakona bloggsins hitti Kristinu og plataði hana í viðtal fyrir bloggið og vorblað skólans sem nú er í vinnslu. Hér er smá bútur úr viðtalinu sem birtast mun i blaðinu sem kemur út í lok maí.

Þú opnaðir nýlega sýningu í þínu heimalandi Litháen. Segðu mér aðeins frá því. Hvað ertu að sýna þar og hvernig kom það til?

Það sem ég er að sýna þar er það sem ég sýndi í Ramskram á Njálsgötunni hérna síðastliðið haust. Það er svolítið erfitt fyrir mig að segja að þetta sem ég er að sýna þarna sé mín vinna svona strangt til tekið. Heldur eru þetta verk sem eru orðin til vegna þess að náttúran eða hið eðlilega ferli eyðileggingarinnar er að störfum. Verkin byggja á því að einhver bjó til kvikmynd fyrir löngu og filmurnar voru í áratugi geymdar í einhverskonar safni fyrir slík verk. Og svo kom ég eiginlega til að „dokumentera“ ferlið sem á sér stað þegar filmur hafa verið lengi í geymslu. Eftir að ég gerði þetta voru filmurnar reyndar svo brenndar þannig að þær eru ekki til lengur. Sem er mjög leitt. Þetta er eiginlega svona minning um eitthvað sem var og mig langaði að deila með öðrum.

Ég hugsaði mikið um það hvernig ég ætti að setja þetta efni fram til að áhorfandinn tengdi við það. Ég rannsakaði bæinn og sögu hans og fann nokkrar leiðir til framsetningar sem mér fundust henta þarna og tengdust hlutum eða hugmyndum sem mér þótti líklegt að bæjarbúar myndu tengja við. Þarna í bænum Kaunas voru t.d. framleidd sjónvörp og ég notaði þá tegund sjónvarps til að sýna vídeóverk sem ég var með svo dæmi sé tekið. Ég held að þetta hafi alveg virkað allt á endanum. Þetta var mín fyrsta sýning í Litháen og það var sá sem kynnti mig fyrir þessum gömlu kvikmyndum sem stóð fyrir því að mér var boðið þarna til Kaunas með þessa sýningu. Sýningin var sett upp í galleríi sem gæti kallast Kaunas listamannahús og var í tengslum við kvikmyndahátíð sem helguð var gömlum kvikmyndum.

From the series Decomposition, 2015-2016

Úr seríunni Decomposition, 2015-2016