Steinunn Gríma Kristinsdóttir – Mundi

aa

Mundi160321-091018

Lokaverkefni Steinunnar Grímu Kristinsdóttur við Ljósmyndaskólann prýðir haus vefsíðunnar að þessu sinni. Nefndist það Mundi.

Gríma kom við á skrifstofu skólans og svaraði nokkrum spurningum sem við lögðum fyrir hana um verkefnið og framtíðina.

Segðu mér Gríma, hver var ástæðan fyrir því að þú valdir að vinna þetta lokaverkefni?

Já,  það eru nú kannski nokkrar ástæður fyrir því. Það á t.d. brýnt erindi við samtíma okkar þetta með búsetu… að það er nú ekki spennandi endilega ef við búum öll hér á suðvesturhorninu eða hvað? Mig langaði líka að spegla líf fólks sem býr á stöðum þar sem maður á ekkert endilega leið framhjá svona dags daglega, fólks sem býr svolítið afskekt, er eitt eftir. Þetta er fólk sem hefur ekki á nokkurn hátt tekið þátt í þessu “græðgisbruðli” sem er svo alsráðandi í þjóðfélaginu og það hefur t.d  enn nándina við allskonar grunvallarþætti eins og við samhengi lífs og dauða. Mér finnst nefnilega dálítið ástæða til að skerpa á þessum tengslum okkar við það hvaðan maturinn okkar kemur.

Já …. en eiginlega var það nú bara svona í grunninn það að mig langaði að draga þennan heim fram og sýna hann. Ég er í raun að taka upp úr “ferðakistunni” allskonar sem ég hef upplifað, því ég er sjálf, í grunninn, sveitastelpa sem er flutt á malbikið.

En hvað varð til þess að þú valdir að fara norður á Strandir?

Sko… það var nú þannig að ég var á mínu árlega Ögurballi í Djúpinu og fór að tala við ungan bónda, hann Steina sem bjó á Finnbogastöðum á Ströndum. Hann sagði mér að hann væri að bregða búi, senda féið í sláturhús og flytjast til Reykjavíkur. Mér fannst þetta eitthvað svo sorglegt og sagði við hann að mig langaði að skrásetja þetta ferli,  ég myndi bara koma og banka upp á og hann tók því vel. Svo flaug ég norður og á flugvellinum á Gjögri voru bara allir íbúarnir í hreppnum mættir að taka á móti mér.  Allir komnir til að sjá þessa konu sem var að koma að hitta Steina!!!  Ég mætti mikilli gestrisni og hýju þarna norðurfrá en svo reyndar þróaðist þetta þannig að endanleg áhersla mín í lokaverkefninu sjálfu varð á hann Munda, pabba hans Steina en hann varð einn eftir á bænum þó skepnurnar væru farnar og sonurinn.

Hvað ætlarðu að gera með lokaverkefnið þitt núna í framhaldinu af því að útskriftarsýningin er búin?

Já,  það var náttúrulega bara lítið brot af allri vinnunni og öllum myndunum sem ég tók  sem ég sýndi þarna á veggnum á útskriftarsýningunni en ég er byrjuð að gera bókverk …. Mér liggur þetta málefni á hjarta, ég vil koma þessu þarna út….myndirnar verða sko ekki settar niður í kjallara. Ég mun hengja þær upp á vinnustaðnum mínum, Quest –  Hair, Beer &  Whiskey Saloon núna á næstunni og svo er ég að vinna í því að fara með þær norður í sumar og sýna þær þar.

Hvað með framtíðina? Hvert stefnir þú?

 Ég stefni nú að því að láta heyra í mér í framtíðinni. Mig langar að vinna fleiri verk með boðskap, verk sem segja sögur og sporna gegn einsleitri umræðu í þjóðfélaginu, mig langar til að fleiri og fjölbreyttari raddir heyrist.

Hvaða málefni ertu þá með í huga?

Jah, fyrir utan þetta sem ég hef talað um þá er það nú móðir jörð og hvernig við umgöngumst hana – samskipti fólks og jarðar og þetta að lifa í SAM – FÉLAGI þar sem allt er heild.

Hvers vegna valdir þú ljósmyndun?

Ég er fljóthuga manneskja og með ljósmyndamiðlinum fannst mér kominn miðill sem  hentaði mér… get notað hann hratt og á skemmtilegan máta. Hann er líka svo handhægur, ég þarf ekki neitt nema myndavél og sjálfa mig og nota t.d. oft sjálfsmyndir í því sem ég er að gera.

 

Gríma161019-111007 gríma160604-172552 Gríma160320-161030 Gríma160320-180450

/sr.