Sólveig M. Jónsdóttir skrásetur lífið í Þórkötlustaðarhverfi, rétt hjá Grindavík, en hún býr sjálf í hverfinu. Áður var þarna blómleg byggð þar sem sumir sóttu sjóinn en aðrir héldu sauðfé en síðustu áratugina hefur hverfinu hnignað. Stærri sveitarfélög í nágrenninu bjóða meiri þjónustu og vinnu. Nú er aðeins búið í sumum húsanna og meðalaldur íbúa er hár.

Myndir Sólveigar frá þessu samfélagi eru hljóðlátar og hún einbeitir sér að heimilunum og smáatriðum sem sýna vel hvernig fólk lifir lífinu í þessari litlu húsaþyrpingu andspænis víðáttu Atlantshafsins. Það má lesa eftirsjá úr myndunum: Eftirsjá eftir því fjölbreytta mannlífi sem þarna þreifst en er að hverfa nú þegar flestir sækja í formfastara líf í þéttbýlinu og það fækkar jafnt og þétt í þorpunum. Í besta falli verða húsin notuð sem sumarbústaðir eða til gistingar fyrir ferðamenn. Þótt ekki sé langt síðan Sólveig flutti þangað skoðar hún líf nágranna sinna af hlýju og nærgætni, og beinir myndavélinni gjarnan að því smáa, en það eru einmitt oft persónulegu smáatriðin í umhverfi okkar sem segja mest til um hver við erum. Þrátt fyrir eftirsjána sem óhjákvæmilega birtist í myndunum eru þær fyrst og fremst óður til lífsins og fólksins sem enn býr í hverfinu.