Tímaritið ÓNEFNA!

aa

Berglaug Petra Garðarsdóttir, Sara Björk Þorsteinsdóttir og Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir sem voru að ljúka 2. námsári í Ljósmyndaskólanum, taka þátt í skapandi sumarstarfi á vegum Kópavogsbæjar nú í sumar og vinna þar að útgáfu tímaritsins ÓNEFNA. Þó þær væru á þönum við efnisöflun náði tíðindakona bloggsins að fá þær Gunnlöðu og Berglaugu til að setjast niður stutta stund og segja frá þessu verkefni.

Hvað er það sem þið eruð að gera og hvernig kom það til?

Berglaug: Í grunninn er hugmyndin á bak við þetta tímarit ÓNEFNA að búa til tímarit sem við hefðum svo gjarnan sjálfar viljað stelast í að skoða þegar við vorum aðeins yngri. Markmið okkar er að birta konur á öllum aldri og af öllum stærðum og gerðum, eins og þær eru, – og sýna að þær eru fallegar þannig. Okkur fannst það vanta í flóruna,… að sýna að konur eru fjölbreytilegar. Það gildir svo auðvitað um karla líka, þeir eru fjölbreytilegir.

Gunnlöð: Við vinnum þetta verkefni á vegum Skapandi sumarstarfs í Kópavogi. Okkur fannst það góður vettvangur til að vinna að þessu sem er málefni sem okkur finnst mikilvægt og að fá fyrir það smá laun.  Við fáum algerlega frjálsar hendur með verkefnið, enginn ritskoðar okkur þannig séð eða segir okkur fyrir verkum. Við erum þarna algerlega á okkar eigin forsendum. Það er frábært.

Hvernig kom þetta til, sóttuð þið um?  

Gunnlöð: Já við sóttum um þetta verkefni og bjuggum til svona „mínítímarit“ þar sem við lögðum fram yfirlit yfir hugmyndina, hvað við vildum gera og hvað við vildum standa fyrir. Og svo lögðum við líka fram áætlun um hvernig við ætluðum að skipuleggja tímann okkar. Okkar verkefni var svo eitt þeirra sem var valið en það eru nokkrir hópar sem vinna ýmis verkefni á vegum Skapandi sumarstarfs í Kópavogi og þeir eru mjög fjölbreyttir.

Hafið þið úr einhverju fjármagni úr að spila? 

Berglaug: Við fáum bæjarstarfsmannalaun fyrir vinnuna okkar en ekki neina peninga umfram það og svo auðvitað leggjum við eitthvað út vegna verkefnisins… þannig að í raun er hægt að líta á þessi laun sem styrk til að koma hugmyndinni í framkvæmd. Við erum að sækja um styrki og leita auglýsinga til þess að standa undir prentkostnaði við blaðið því það stendur til að prenta það og koma í dreifingu. Okkur finnst það enn meira spennandi að blaðið komi út á prenti og verði ekki bara á netinu.

Gunnlöð: Já, við viljum endilega að blaðið verði líka fáanlegt í prentútgáfu og erum að fara af stað í þá vinnu núna að gera það að veruleika.

Eru þið komnar með allt efni í blaðið? 

Berglaug: Sko, við erum komnar með útlínur af efni fyrir 60 opnur og sumt er tilbúið og annað er í vinnslu. Við sem stöndum að þessu erum allar í ljósmyndanámi þannig að blaðið verður mjög ljósmyndamiðað en líka verða þar greinar eða stuttar hugleiðingar um allskonar málefni sem okkur finnst að eigi þarna heima. Við erum búnar að hafa samband við listafólk sem okkur langar að hafa efni eftir í blaðinu þannig að þetta verður ekki bara okkar efni.

Gunnlöð: En svo verður líka dálítið af ljósmyndum og slatti af myndaþáttum af ýmsu tagi og kannski ljóð og ýmislegt fleira.

Ég er búin að heyra af brjóstamyndunum… viljið þið segja mér eitthvað frá því?

Gunnlöð: Ég sá fyrir mér, þegar við byrjuðum að tala um blaðið, að þar væri opna sem væru bara brjóst, brjóst, brjóst, brjóst.  Brjóst eru búin að vera svo mikið í umræðunni í sambandi við t.d Free the Nipple og allt í kringum það. Mér finnst að við sjáum samt alltaf sömu brjóstin eða samskonar brjóst; þessi ungu, milli eða risastóru, stinnu brjóst og alltaf hvít. Svo sjáum  við sömu brjóst líka í bíómyndum og auglýsingum. Þetta gefur ungum konum og öllum konum raunar, algerlega ranga mynd, því flestar höfum við jú t.d. farið í sund og vitum það vel að öll brjóst eru ekki svona. Brjóst eru allskonar og ein brjóst eru ekkert endilega fallegri en önnur ef út í það er farið.

Berglaug: Það hefði verið dálítið gaman þegar maður var fjórtán ára og var að þykjast vera gella og skoða tímarit að sjá t.d ekki alltaf samskonar brjóst, heldur allskonar. Og kannski af því að Gunnlöð minntist á þessa einsleitni sem er í gangi…kannski eru margar konur sem hugsa að það væri gaman að taka þátt í Free the Nipple dæminu og svoleiðis en hugsa kannski með sér: Ég get það ekki því ég er ekki með réttu brjóstin í þetta.

Gunnlöð: Já, þegar stelpur eru fyrst að fá brjóst þá er það svo stressandi fyrir margar einhvernvegin … og það hefði verið gott að sjá að bjóst eru mjög mismunandi í staðinn fyrir að hafa bara fyrir augunum þessa einsleitni. En grunnhugmynd okkar er sem sé að sýna fjölbreytileika þessa eina líkamsparts.

Hvernig hefur ykkur gengið að fá fjölbreytt brjóst til að mynda? 

Berglaug: Merkilega vel, satt best að segja. Við eiginlega bjuggumst ekki alveg við þessum viðtökum. Við auglýstum eftir konum sem væru tilbúnar í brjóstamyndatöku og höfðum í yfirskriftinni að við værum að leita að brjóstum sem væru allskonar… stór, lítil, stinn, lafandi og bara sem fjölbreytilegust. Svo sögðum við líka „ …ef að þú hefur einhverntímann verið óörugg með brjóstin þín, endilega komdu.“  Það voru allavega tvær sem sögðu að sú setning hefði orðið til þess að þær ákváðu að taka þátt í þessu verkefni með okkur.

Gunnlöð: Við tókum líka skýrt fram að ekki væri hægt að tengja saman mynd og nafn eða andlit. Þú réðir því alveg sjálf hvort þú segðir frá því að þú hefðir tekið þátt í verkefninu.

Berglaug: Já, og við buðum t.d. þeim sem voru með tattoo eða önnur sérkenni á brjóstum að við gætum fjarlægt þau eftir á, ef þær vildu.

Gunnlöð: Þetta var eitthvað svo frábært, við fengum alveg ótrúlega fjölbreytt brjóst og það komu allskonar konur, t.d. konur með barn á brjósti og eldri konur, já eiginlega allur skalinn.

Berglaug: Já þetta var gaman það var margt sem kom líka upp í kringum þetta og við ræddum. Kom mér á óvart að það voru svona margar eldri konur sem komu en samt ekki… þegar maður er í búningsklefum í sundi eða líkamsrækt þá eru það alltaf ungu stelpurnar sem eru með handklæðið vafið utan um brjóstin en fullorðnu konurnar eru það ekki … þær eru eins og búnar að ná einhverri sátt við það hvernig þær líta út. Leiðinlegt að þurfa að vera orðin eitthvað x gamall til að fatta að það skiptir ekki máli hvort brjóstin eru lítil eða stór.

Þá er svona umræða kannski ein leið til að stytta þann tíma sem það tekur?

Gunnlöð: Já, Við fengum mjög mikið af skilaboðum eftir þennan tökudag. Margar konur sem þökkuðu okkur fyrir og fannst það hafa verið sigur að stíga út fyrir þennan þægindaramma…margar hugrakkar konur þarna og svo aðrar sem ekki treystu sér í þetta að sinni, sem við skiljum alveg … ég er nú ekki viss um að við hefðum kannski sjálfar stokkið í svona myndatöku án umhugsunar.

Hvenær kemur svo blaðið út?

Berglaug: Blaðið kemur út í júlí þannig að það er til þess að gera stuttur vinnslutími á þessu öllu, átta vikur.

„En við getum þetta“ segja þær báðar í kór.

Gunnlöð: Já þetta verður bara það sem það verður og það er allt í lagi þó blaðið verði ekki fullkomið. Það er bara í takt við „konseptið“ líka. Kannski er þetta bara byrjun á einhverju öðru.

Fáið þið einhverja aðstoð með útlitið á blaðinu?

Gunnlöð: Einn yfirmanna í Skapandi sumarstarfi í Kópavogi er grafískur hönnuður þannig að við leitum örugglega aðstoðar þangað en svo leggjum við bara upp með að það er gaman að taka slaginn og sjá hver útkoman verður. Erum mjög spenntar.

Berglaug: Svo má geta þess að við erum við á Instagram, onefna og það er hægt að fylgjast með ferlinu þar.

/sr.