Upprennandi í Ramskram – Ásgeir Pétursson

aa

Upprennandi í Ramskram 17. nóvember 2018 – 30.des

Nokkrir nemendur Ljósmyndaskólans hafa síðastliðið ár verið í samstarfi við galleríið Ramskram á Njálsgötu 49 í Reykjavík. Fá þessir upprennandi ljósmyndarar og listamenn tíma til ráðstöfunar í galleríinu og hafa frjálsar hendur með það hvernig þau nýta rýmið og hvað þau sýna. Hver nemandi opnar sýningu sem stendur yfir eina helgi.

Það er Ásgeir Pétursson sem er næstur í sýningaröðinni Upprennandi og opnar hann  sýningu sína, Loftleiðir / Airways,  laugardaginn 24. nóv. kl.17.00.

Jón Proppé listfræðingur skrifar eftirfarandi um verk Ásgeirs,  Loftleiðir / Airways.

„Litaðar rákir mynda mynstur á svörtum fleti og Ásgeir Pétursson nýtir þessar rákir til að byggja upp myndverk, frá einfaldri hreyfingu yfir myndflötinn að óreglulegu samspili þar sem rákirnar liggja þvers og kruss yfir myndina á stórum flekum. Myndirnar eru einfaldar og fallegar geómetrískar tilraunir um liti, línur og flöt í anda fyrstu abstraktmálaranna en þegar við hugum nánar að verkunum kemur nokkuð óvenjulegt í ljós: Þetta eru ekki málverk heldur ljósmyndir.

Eitt af því sem Ásgeir er að velta fyrir sér með þessum verkum er hvort ljósmyndir geti verið abstrakt. Markmið abstraktlistarinnar var að losa málverkið undan því að vera eftirmynd hlutveruleikans; að losa málverkið undan oki hlutanna og leyfa litum, línum og formum að leika frjálsum á myndfletinum eins og falleg laglína titrar um loftið þegar strokið er um fiðlu eða blásið í flautu. Ljósmyndin er hins vegar í eðli sínu alltaf mynd af einhverju: Ljósið varpast af hlutunum sem við beinum linsunni að og mynd af þeim er skráð á filmu eða myndflögu. Vissulega er hægt að nota lýsingu, filter, sjónarhorn eða eftirvinnslu ljósmyndarinnar til að aflaga frummyndina á ýmsan hátt, jafnvel svo að hún þekkist ekki lengur. Samt er þetta í grunninn alltaf ljósmynd af einhverju.

Rákirnar í verkum Ásgeirs eru líka myndir af einhverju. Þær sýna línurnar sem siglingarljós flugvéla teikna á himininn að nóttu til. Með berum augum sjáum við auðvitað ekki rákir heldur aðeins ljósdíla sem hreyfast en í myndavélinni má hægja á tímanum svo við sjáum ferðalag ljósanna sem línur. Þar með er Ásgeir kominn með litaðar línur sem hann getur svo raðað saman að vild. Þetta eru sem sagt ansi snúin verk: Hreinræktaðar ljósmyndir af veruleikanum sem þó geta orðið hráefni í abstraktverk.

Kannski er þetta vandamál þá ekki jafn flókið og við héldum. Abstraktmálararnir vildu losna undan hlutunum með því að nota aðeins liti, línur og form, en ef við hugsum út í það er veröldin líka full af litum, línum og formum. Allt þetta má finna í fallegri fjallshlíð ef vel er að gáð og landslagsmálarar eins og Kjarval eða Ásgrímur Jónsson brutu oft upp landslag í litafleti og línuspil. Kannski er þá svarið að bilið milli myndar af veruleika og abstraktmyndar sé ekki eins afgerandi og við höfum lengi haldið. Ef við horfum í kringum okkur getum við fundið abstrakt mótíf úti um allt en í erli dagsins tökum við ekki eftir þeim því þar skiptir máli að skynja hluti og bregðast við þeim. Ökumaður sem hugar aðeins að lit bílanna, hringformi dekkjanna og samhverfu bílljósanna lendir fljótlega í árekstri. Við þurfum að setja okkur í sérstakar stellingar – horfa öðruvísi og gefa hlutum gaum – til að draga fram þetta abstrakt horf veraldarinnar. Þannig getum við pakkað abstraktmyndum upp úr jafnvel grámyglulegum hversdagsveruleikanum.“

Jón Proppé

/sr.