Upprennandi í Ramskram – Ester Inga Eyjólfsdóttir

aa

Upprennandi í Ramskram 17. nóvember 2018 – 30.des

Nokkrir nemendur Ljósmyndaskólans hafa síðastliðið ár verið í samstarfi við galleríið Ramskram á Njálsgötu 49 í Reykjavík. Fá þessir upprennandi ljósmyndarar og listamenn tíma til ráðstöfunar í galleríinu og hafa frjálsar hendur með það hvernig þau nýta rýmið og hvað þau sýna. Hver nemandi opnar sýningu sem stendur yfir eina helgi.

Það er Ester Inga Eyjólfsdóttir sem ríður á vaðið í sýningaröðinni Upprennandi og opnar sýningu sína laugardaginn 17. nóv. kl.17.00.

Í ljósmyndaverkum sínum kannar Ester Eyjólfsdóttir samband mannsins við umhverfi sitt á ógagnrýnin og stundum kómískan hátt. Hún leitast við að skoða nærveru fólks í náttúrunni og hvernig það notar náttúru til að skapa sér sitt eigið umhverfi bæði utan- og innandyra.
Hugmyndin að “Af Jörðu” kviknaði þegar Ester vann við garðplöntusölu yfir sumartímann og fór að velta fyrir sér hvernig sambandi fólks við nærumhverfi sitt væri háttað á persónulegum skala, eftir að hafa fylgst með baráttunni við náttúruöflin í þeim óeðlilegu aðstæðum sem óhjákvæmilega skapast inni í gróðurhúsum og á gróðrastöðvum.

Áhugi hennar á umhverfi sínu og náttúrunni kviknaði snemma og hefur verið rauður þráður í gegnum hennar verk. Ester er menntaður efnafræðingur og starfar sem slíkur samhliða ljósmynduninni. Af Jörðu er fyrsta einkasýning Esterar.

Sýningin er opin laugardaginn 17. nóvember frá 17 – 19 og sunnudaginn 18. nóvember frá 14 – 17.

Ramskram er einkarekið sýningarrými sem sérhæfir sig í að koma samtímaljósmyndun á framfæri. Á þriggja ára starfstíma gallerísins hafa fjölmargir listmenn samtímans sýnt þar verk sín, bæði íslenskir og erlendir.

Upprennandi – 7 sýningar – 7 opnanir

Ester Inga Eyjólfsdóttir, 17-18. nóv.
Ásgeir Hafsteinn Pétursson, 24-25. nóv.
Hjördís Jónsdóttir, 1.-2. des.
Sonja Margrét Ólafsdóttir, 8.- 9. des.
Kamil Grygo, 15.-16. des.
Eydís Björk Guðmundsóttir, 22.-23. des.
Helga Laufey Ásgeirsdóttir, 29. -30. des

Gallerí Ramskram er á Njálsgötu 49, 101 Reykjavík.
Opið er laugardaga og sunnudaga kl. 14-17
Hægt er að fylgjast með viðburðum á vegum gallerísins á http: www.ramskram.is og/eða www.facebook.com/RAMskram.Iceland.

 

/sr.