Laugardaginn þann 28. janúar, kl. 15.00 opnar í Grófarsal sýning á verkum Jóhönnu Ólafsdóttur ljósmyndara.
Á sýningunni gefur að líta úrval verka eftir Jóhönnu sem er ein af fáum íslenskum kvenljósmyndurum af sinni kynslóð sem starfað hefur allan sinn feril sem ljósmyndari. Hún tók þátt í samsýningum á árunum 1980 og 1987 og árin 2012 og 2014 voru verk hennar sýnd á yfirlitssýningum um íslenska ljósmyndasögu þar sem þau vöktu verðskuldaða athygli segir á vef Ljósmyndasafns Íslands. Þetta er fyrsta einkasýning Jóhönnu hér á landi og fylgir henni vegleg sýningarskrá. Á vef safnsins er einnig fjallað aðeins um feril Jóhönnu og segir þar meðal annars að Jóhanna sé næmur mannlífsljósmyndari og þess sjái stað í myndasyrpum hennar af fólki í dagsins önn til dæmis úr miðbæ Reykjavíkur. Hún hefur líka ljósmyndað mikið af verkum myndlistarmanna, starfaði lengi sem ljósmyndari í Þjóðleikhúsinu en er nú ljósmyndari á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Nánar má fræðast um sýninguna á vef Ljósmyndasafnsins.
Sýningin verður opin til 14. maí 2017 eru opnunartímar sem hér segir:
Mánudaga – fimmtudaga:
10:00 – 18:00
Föstudaga:
11:00 – 18:00
HELGAR:
13:00 – 17:00
/sr.