Úskriftarsýning Ljósmyndaskólans: Therese Precht Vadum

aa

 

Therese Precht Vadum er ein af sjö nemendum sem nú útskrifast frá Ljósmyndaskólanum. Sýning þeirra opnar í Lækningaminjasafninu föstudaginn þann 12. janúar kl. 17.00.

Therese Precht Vadum sýnir tvö vídeó. Annað fjallar um aðgreiningu hins karlmannlega og hins kvenlega, karla og kvenna. Þar sjáum við hvernig andlit Therese virðist flökta milli þessara tveggja póla við það eitt að svipbrigði hennar breytast lítillega og hún færir höfuðið örlítið til í birtunni. Þessi hæga umbreyting er næstum dáleiðandi en ætti að fá okkur til að hugsa á gagnrýnni hátt um það hvort hin skýra aðgreining milli karls og konu sé bara tilbúningur? Við að verða meðvitaðri um að kyngervi er kannski ekki alveg klippt og skorið. Transfólk hefur stigið fram og krefst þess að mega sjálft ákveða kyn sitt í samræmi við eigin upplifun frekar en fordóma samfélagsins – eða jafnvel að hafna alveg aðgreiningunni. Við erum að átta okkur á því að kyngervi er frekar eins og samfella eða róf milli pólanna tveggja. Vídeóið sýnir þetta á einfaldan en óumræðilegan hátt. Við sjáum með eigin augum þetta róf og uppgötvum að það er enginn ákveðinn punktur í vídeóinu þar sem við getum sagt að nú sé andlitið orðið kvenlegt eða karlmannlegt. Með þessari einföldu framsetningu hefur Therese í vissum skilningi tekist að skera upp úr í þessu umdeilda máli.

Hitt verkið snýst líka um skynjun og fordóma, þótt á annan hátt sé. Í bakgrunni sjáum við stórvaxna konu liggja nakta og snúa að okkur. Í forgrunni eru vatnsfyllt glerílát sem virka eins og linsur. Konan hreyfir sig hægt úr einni stellingu í aðra og í glerinu virðist hún stundum grennast, svo gildna og grennast aftur. Þessar hægu umbreytingar er undurfagrar, næstum eins og lifandi abstraktmynd, en það er raunveruleg kona í bakgrunninum sem ætti að minna okkur á, eins og hitt vídeóið gerir, hvernig skynjun okkar brenglast oft af aðstæðum og fyrirfram gefnum hugmyndum – hvort sem varðar líkamslögun eða kyngervi. Jón Proppé

Opnunardaginn þann 12. janúar er opið til kl. 19.00

Laugardaga og sunnudaga kl. 12.00 – 18.00

Fimmtudaga – föstudaga kl. 15.00 – 19.00

Sýningin stendur til sunnudagsins 4. febrúar og verður hluti af Safnanótt sem haldin er á Vetrarhátíð.

Á Safnafnótt, 2. febrúar, verður opið frá 19.00 – 23.00

/sr.