Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans 11. janúar – 20. janúar 2019

aa

Sex nemendur útskrifast frá Ljósmyndaskólanum í janúar 2019 og mun af því tilefni verða haldin sýning á útskriftarverkum þeirra að Hólmaslóð 6. Opnar sýningin föstudaginn þann 11. janúar kl. 17.00 og stendur til sunnudagsins 20. janúar.

Útskriftarnemendurnir eru:
Ásgeir Pétursson, Helga Laufey Ásgeirsdóttir, Hjördís Jónsdóttir, Kamil Grygo, Sonja Margrét Ólafsdóttir og Þórsteinn Sigurðsson.

Öll eru þau nú að ljúka fimm anna námi í skapandi ljósmyndun frá Ljósmyndaskólanum en mörg þeirra hafa þegar vakið talsverða eftirtekt fyrir verk sín

Þórsteinn Sigurðsson var þátttakandi á samsýningu listaskóla í Evrópu, Fotofever 2018, en viðburðurinn er hluti af stærstu ljósmyndasýningu Evrópu, Paris Photo, sem haldin er í nóvember ár hvert. Einnig vakti ljósmyndaverk hans Container Society, mikla eftirtekt síðastliðið sumar. Sonja Margrét var fulltrúi Íslands á glæsilegri samsýningu norrænna listamanna, Listening to the Sound of the Shell, sem opnuð var í Finnlandi í ágúst 2018. Verk Ásgeirs prýddu veggi Hörpu í október 2017 en þá hékk þar uppi sýning hans, Icescapes. Kröftugar jöklamyndir Ásgeirs sýndu stórbrotna náttúru Grænlands og voru innlegg í brýna umræðu um loftlagsbreytingar.

Sexmenningarnir sem nú útskrifast nota ljósmyndamiðilinn á persónulegan máta og takast á við ólík málefni út frá mismunandi forsendum í útskriftarverkum sínum. Verk Ásgeirs, Færeyingahöfnin á Grænlandi fjallar um bæ á Grænlandi sem byggður var upp fyrir um 100 árum af færeyskum sjómönnum sem stunduðu fiskveiðar við Grænland. Í verkinu Benchmarks veltir Helga Laufey fyrir sér flæðandi kynhneigð karlmanna og vill opna huga fólks fyrir því að kynhneigð getur verið á rófi. Hjördís fjallar um fegurðarstaðla og útlitsdýrkun vestræna heimsins í verkinu Filtered en aldrei hefur verið auðveldara að búa til eigin ímynd á samfélagsmiðlum og lifa samkvæmt uppskrift sem á að ávísa á hamingju og vellíðan. Í verkinu, Eyja, fæst Kamil við hvernig það er að vera innflytjandi á Íslandi og tilfinninguna sem fylgir þeirri aðstöðu. Sonja á verkið Rætur og skoðar þar hvernig við mótumst af þeim stað sem við ölumst upp á og hvernig staður og landslag tengir fjölskyldu saman. Hún horfir á sína eigin móðurfjölskyldu þar sem fjórar kynslóðir kvenna eiga það sameiginlegt að hafa alist upp á sama stað. Þórsteinn hefur lagt áherslu á heimildaljósmyndun og gefur út bókverkið Juvenile Bliss. Þar fjallar hann um  tvær kynslóðir af ungu fólki í Reykjavík og gefur áhorfandanum innsýn í veröld þeirra.

Það verða því fjölbreytt ljósmyndaverk sem sjá má í sýningarrýminu að Hólmaslóð 6, húsnæði sem áður hýsti netagerðarverkstæði og umsvif tengd útgerð. Forvitnilegt verður að sjá þennan hóp taka sér rými á hinum gróskumikla vettvangi samtímaljósmyndunar í framtíðinni.

Útskriftarnemendurnir gefa út veglega ljósmyndabók og verður hún til sölu á sýningarstað á meðan á sýningunni stendur.

Sýningin stendur til 20. janúar og á opnunartíma munu listamennirnir verða á sýningarstað, veita leiðsögn um sýninguna og fjalla um verkin.

Opunartími:

Lau. 12/1 12.00 -18.00

Sun. 13/1 12.00 -18.00

Þri. 15/1  12.00 – 18.00

Mið. 16/1 12.00 -18.00

Fim. 17/1  12.00 -18.00

Fös. 18/1 12.00 -18.00

Lau. 19/1 12.00 -18.00

Sun. 20/1  12.00 – 18.00

 

©Helga Laufey Ásgeirsdóttir, Benchmarks, 2018

©Sonja Margrét Ólafsdóttir, Rætur. 2017

 

©Hjördís Jónsdóttir, Filtered.

©Kamil Grygo, Eyja, 2018.

 

©Ásgeir Pétursson, Færeyingahöfn á Grænlandi, 2017.

     ©Þórsteinn Sigurðsson, Juvenile Bliss.

 

/sr.