Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans 2020 – Anna Margrét Árnadóttir – The Bunny Diaries

aa

Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans 2020

Föstudaginn 10. janúar kl. 17.00 opnar útskriftarsýning Ljósmyndaskólans að Hólmaslóð 6.

Að þessu sinni útskrifast sex nemendur af námsbraut í skapandi ljósmyndun 2; Anna Margrét Árnadóttir, Gissur Guðjónsson, Hjördís Eyþórsdóttir, Hrafna Jóna Ágústsdóttir, Ívar Örn Helgason og Linda Björk Sigurðardóttir.

Viðfangsefni og aðferðir nemenda spanna breitt svið og útskriftarnemendurnir takast á við ólík málefni út frá mismunandi forsendum, listrænni sýn og fagurfræði.

Hér beinum við sjónum að Önnu Margréti Árnadóttur og verki hennar The Bunny Diaries.

 

Anna Margrét kynnir verkið með eftirfarandi hætti:

Með handfylli af draumkenndum en óhugnanlegum ljósmyndum og litlum textabrotum leikur Anna Margrét sér með að setja hryllilegar senur í uppljómaðan búning. Í The Bunny Diaries smitast áhrif úr bókmenntum, kvikmyndum og hversdagslegum frásögnum yfir í misheppnaða ástarsögu. Mikil framleiðsluvinna, sem að vissu leyti svipar til kvikmyndagerðar, liggur á bak við hverja ljósmynd. Vandaðir leikmunir s.s. perlum skreytt skammbyssa og stórhættulegir drápshælar eru einstaklega eftirtektarverðir ásamt ljósri og kvenlegri litapallettunni sem einkennir verkið. Anna Margrét býður áhorfendum að upplifa heiminn sem hún hefur skapað, í sögu sinni um hefnd og eftirvæntingar.

/sr.