Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans 2020 – Hrafna Jóna Ágústsdóttir – Stráðu salti á mig.

aa

Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans 2020

Föstudaginn 10. janúar kl. 17.00 opnar útskriftarsýning Ljósmyndaskólans að Hólmaslóð 6.

Að þessu sinni útskrifast sex nemendur af námsbraut í skapandi ljósmyndun 2; Anna Margrét Árnadóttir, Gissur Guðjónsson, Hjördís Eyþórsdóttir, Hrafna Jóna Ágústsdóttir, Ívar Örn Helgason og Linda Björk Sigurðardóttir.

Viðfangsefni og aðferðir nemenda spanna breitt svið og útskriftarnemendurnir takast á við ólík málefni út frá mismunandi forsendum, listrænni sýn og fagurfræði.

Hér beinum við sjónum að Hröfnu Jónu Ágústsdóttur og verkinu Stráðu salti á mig.

 

Það er fátt sem mótar huga okkar og andlega heilsu eins mikið og áföll sem dynja á í lífinu. Stundum er sagt að tíminn lækni öll sár en það er rangt. Tíminn gefur okkur styrk til að takast á við sársaukann sem fylgir okkur þó áfram út í lífið.

Með verkinu Stráðu salti á mig, heimsækir Hrafna erfitt augnablik í lífi sínu og speglar sig í minningabrotum frá hræðilegum atburði sem átti sér stað fyrir 12 árum. Minningabrotin veita innsýn í kaótískan hugarheim þar sem takast á röklausar hugsanir og tómleiki. Í verkinu heyrist endurómur af því umhverfi sem varð á vegi ringlaðrar konu í eftirköstum áfalls.

Gerð verksins, er leið Hröfnu til að eiga samtal við minningar sínar, strá salti í sárin og takast þannig á við sársaukann, halda minningunum lifandi og túlka þær á listrænan hátt.

/sr.