Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans 2020 – Linda Björk Sigurðardóttir- 12 vikur.

aa

Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans 2020

Föstudaginn 10. janúar kl. 17.00 opnar útskriftarsýning Ljósmyndaskólans að Hólmaslóð 6.

Að þessu sinni útskrifast sex nemendur af námsbraut í skapandi ljósmyndun 2; Anna Margrét Árnadóttir, Gissur Guðjónsson, Hjördís Eyþórsdóttir, Hrafna Jóna Ágústsdóttir, Ívar Örn Helgason og Linda Björk Sigurðardóttir.

Viðfangsefni og aðferðir nemenda spanna breitt svið og útskriftarnemendurnir takast á við ólík málefni út frá mismunandi forsendum, listrænni sýn og fagurfræði.

Hér beinum við sjónum að Lindu Björk Sigurðardóttur og verkinu 12 vikur.

Linda segir um verkið:

Verkið 12 vikur er listræn túlkun á sorgarferli eftir fósturmissi.

Fyrir ári síðan missti ég fóstur þegar ég var komin tólf vikur á leið. Í gegnum ljósmyndun tjái ég tilfinningar mínar og hugarástand eftir missinn, hugsanir sem leituðu á mig og drógu úr mér þrótt á sama tíma. Á meðan mætti ég því viðhorfi aftur og aftur að ég þyrfti ekki að taka þetta of nærri mér.

Ferlið hefur gefið mér innsýn inn í sameiginlega upplifun fjölmargra kvenna sem gengið hafa í gegnum sömu reynslu, bítandi á jaxlinn. Ekki í leit að huggun heldur að rödd sem segir að það sé allt í lagi að syrgja.

12 vikur er myndræn dagbók af minni upplifun, mín leið til að nálgast sorgina og skapa mér nauðsynlegan tíma og rúm til að vinna úr henni.

/sr.