Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans: Berglaug Petra Garðarsdóttir

aa

Berglaug er ein þeirra sjö nemenda sem nú útskrifast frá Ljósmyndaskólanum. Sýning útskriftarnemenda er í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi.

„Berglaug Petra Garðarsdóttir fæst við að greina og finna andsvar við því sem hefur verið kallað hin karllæga sýn – það hvernig karlmenn sjá gjarnan konur og sýna þær á myndum. Konur eru dæmdar út frá útliti sínu og eftir ímyndum sem karlmenn hafa búið til og viðhaldið. Hugtakið „hin karllæga sýn“ er tæki til að greina hvernig konur hafa verið hlutgerðar í myndum og hvernig það er þáttur í því að ræna þær sjálfstæði og valdi yfir eigin lífi. Sem andsvar við þessu hafa listakonur – í ljósmyndun, kvikmyndagerð og fleiri greinum – reynt að setja fram kvenlæga sýn á konur, að finna leið til sýna konur sem byggist á þeirra eigin reynslu og skoðunum. Þetta er liður í því að taka völdin í eigin hendur í sviði þar sem karlar hafa svo lengi ráðið að jafnvel margar konur hafa sjálfar farið að telja hina karllægu sýn réttan mælikvarða á verðleika sína.

Berglaug Petra kannar hina kvenlægu sýn í röð ljósmynda sem sýna konur í uppstillingum eins og við erum orðin svo vön að sjá þær í fjölmiðlum og kvikmyndum – áherslan á líkamann en andlitið jafnvel ekki sýnt. Við fyrstu sýn virðast þetta vera myndir af því tagi sem við erum orðin svo vön að sjá út um allt að við tökum varla eftir því hve óeðlilegar og niðurlægjandi þær eru í raun. Þegar við gáum betur sjáum við smáatriði sem alls ekki samræmast þeirri karllægu sýn en komast nær því að túlka raunveruleika og reynsluheim kvenna. Á þennan hátt sýnir Berglaug Petra okkur hve algjörlega hin karllæga sýn hefur þurrkað raunveruleika kvenna út úr kvenímyndinni. “

Jón Proppé

 

Opnunardaginn þann 12. janúar er opið til kl. 19.00

Laugardaga og sunnudaga kl. 12.00 – 18.00

Fimmtudaga – föstudaga kl. 15.00 – 19.00

Sýningin  er í Lækningaminjasafninu og stendur til sunnudagsins 4. febrúar og verður hluti af Safnanótt sem haldin er á Vetrarhátíð.

Á Safnafnótt, 2. febrúar, verður opið frá 19.00 – 23.00

/sr.