Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans: Díana Júlíusdóttir

aa

Díana Júlíusdóttir er ein þeirra nemenda sem nú útskrifast frá Ljósmyndaskólanum. Útskriftarsýning þeirra er  í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi og opnar þann 12. janúar kl. 17.00.

„Á hverju sumri undanfarin ár hefur Díana Júlíusdóttir flutt með fjölskyldu sína í Galtarvita sem flestir Íslendingar þekkja aðeins úr veðurfréttum og stendur á afskekktum stað á Vestfjörðum. Vitinn er svo langt utan alfaraleiðar að þar er ekkert símsamband, ekkert rafmagn og til að komast til Súgandafjarðar, sem er næsta byggð, þarf að fara gangandi langa leið yfir fjöllin. Fjöll girða líka víkina þar sem vitinn stendur nema í vesturátt þar sem Norður-Atlantshafið ólgar og brýtur á klettunum. Á þessum harðbýla stað hefur fjölskyldan fundið sér griðastað þar sem hún getur lifað einföldu lífi, haft félagsskap af hvert öðru, laus við það stanslausa áreiti sem nagar sífellt í okkur í þéttbýlinu.

Díana sýnir okkur þessa heimskautaparadís á látlausan hátt. Hún beinir ekki athyglinni að hrikalegri og ægifagurri náttúrunni, heldur að fjölskyldulífinu og heimili þeirra í þessari afskekktu klettavík. Myndirnar eru svart-hvítar og það undirstrikar tímaleysið – maður getur næstum því ímyndað sér að þær hafi verið teknar fyrir áratugum eða jafnvel heilli öld síðan. Þetta tímaleysi er kjarninn í ljósmyndaröð Díönu sem fangar bæði einangrunina á Galtarvita og hinn hæga takt lífsins fjarri asa og angri borgarinnar.“

Jón Proppé

Opnunartímar:

Laugardaga og sunnudaga kl. 12.00 – 18.00

Fimmtudaga – föstudaga kl. 15.00 – 19.00

Sýningin er í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi og stendur til sunnudagsins 4. febrúar og verður hluti af Safnanótt sem haldin er á Vetrarhátíð.

Á Safnafnótt, 2. febrúar, verður opið frá 19.00 – 23.00.

/sr.