Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans: Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

aa

Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir er ein þeirra nemenda sem nú útskrifast frá Ljósmyndaskólanum. Útskriftarsýning þeirra er  í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi.

„Talið er að líkamsímyndarröskun hrjái allt að 2,4% af mannfólkinu. Hún felst í því að fólk verður heltekið af því sem því virðist vera alvarleg lýti á útliti sínu. Jafnvel þegar horft er í spegil sjá þau þessi lýti magnast og verða ýktari. Þótt fyrst hafi verið skrifað um einkennin á nítjándu öld var það ekki fyrr en fyrir fjörutíu árum að heilbrigðisyfirvöld fóru að skilgreina þau.

Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir setur sér það verkefni að fjalla um þessa röskun í ljósmyndum sínum – að miðla til okkar upplifun þeirra sem af henni þjást og sýna hve alvarlegar afleiðingarnar geta verið. Þetta er ekki auðvelt: Hvernig er hægt að mynda það sem aðeins er að finna í huganum? Fólkið ber ekki ranghugmyndir sínar utan á sér og því síður kann myndavélin að greina þær. Gunnlöð Jóna fann konur sem voru tilbúnar til að sitja fyrir og tók viðtöl til að komast að því hvernig þær upplifðu útlit sitt – lýtin sem þær einar geta séð. Síðan vann hún myndirnar til að reyna að nálgast þessa brengluðu sýn með því að klippa og endurraða og sauma þær saman, og endurspegla þannig sjálfsmyndina sem konurnar höfðu lýst. Myndirnar færa okkur fyrir sjónir hve alvarlegur þessi heilsufarsvandi er en jafnframt tekst Gunnlöðu Jónu á sláandi hátt að sýna okkur í ljósmyndaverki það sem gerist í huga kvennanna sem hún myndaði.“

Jón Proppé.

 

Opnunartímar:

Laugardaga og sunnudaga kl. 12.00 – 18.00

Fimmtudaga – föstudaga kl. 15.00 – 19.00

Sýningin er í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi og stendur til sunnudagsins 4. febrúar og verður hluti af Safnanótt sem haldin er á Vetrarhátíð.

Á Safnafnótt, 2. febrúar, verður opið frá 19.00 – 23.00.

/sr.