Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans: Pamela Perez

aa

 

Pamela Perez er ein þeirra sem nú útskrifast frá Ljósmyndaskólanum. Sýning útskriftarnemenda í Lækningaminjasafninu stendur til 4. febrúar.

„Pamela Perez sýnir ljósmyndir frá umhverfi Hafnarfjarðar þar sem hún býr. Bærinn er þekktur fyrir falleg, gömul hús, hraunið og höfnina, en Pamela kýs að leita út fyrir almannaleið og finnur þar gjarnan myndefni í hinu smáa: Trjágreinar sem skerast á myndfletinum, skrýtnar myndanir í landslaginu eða áhugaverð litbrigði í gróðrinum. Aðeins á einni mynd sjáum við glitta í hús gegnum trjágróðurinn.

Þessar ljósmyndir hefur Pamela tekið á gönguferðum sínum um umhverfi bæjarins. Hún leggur ekki upp með ákveðna leið í huga heldur leggur af stað með myndavélina og lætur myndefnið vísa sér leið. Afraksturinn er röð ljósmynda sem eru einstaklega ljóðrænar og fullar af tilfinningu. Aðkomufólk mun ekki kannast við staðina á myndunum en þeim er heldur ekki ætlað að vera til leiðsagnar fyrir ferðamenn. Það sem þær miðla er miklu frekar hið hversdagslega og kunnuglega í umhverfinu þar sem við setjumst að. Því miður er það síðan svo að eimitt þessi kunnugleiki verður til þess að við tökum ekki lengur eftir þessum stöðum þegar við þeytumst um í erli dagsins. Þegar svo er missum við af ýmsu af því undursamlega sem í umhverfi okkar býr. Pamela Perez vill færa okkur aftur tilfinninguna fyrir þessum smáu undrum.“

Jón Proppé

 

Opnunatímar:

Laugardaga og sunnudaga kl. 12.00 – 18.00

Fimmtudaga – föstudaga kl. 15.00 – 19.00

Sýningin  er í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi. Hún stendur til sunnudagsins 4. febrúar og verður hluti af Safnanótt sem haldin er á Vetrarhátíð.

Á Safnafnótt, 2. febrúar, verður opið frá 19.00 – 23.00

/sr.