Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans: Sara Björk Þorsteinsdóttir

aa

Sara Björk er ein þeirra sem nú útskrifast frá Ljósmyndaskólanum. Sýning útskriftarnemenda stendur yfir í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi til 4. febrúar.

„Sara Björk Þorsteinsdóttir kannar í verki sínu áhrif og afleiðingar samfélagsmiðlanna sem verða æ fyrirferðarmeiri í lífi okkar margra. Einkum beinir hún sjónum að því flóði ljósmynda og „sjálfa“ sem þessir miðlar flytja. Ættum við að líta á þetta sem stig í því að færa ljósmyndun til allra – framhald og því ferli sem hófst með Brownie- og Instamatic-myndavélunum – eða boðar þetta dauða ljósmyndarinnar sem alvöru list- og tjáningarmiðils? En alvarlegri spurningar vakna þegar við hugsum um hvernig það er orðinn æ gildari þáttur í lífi margra að taka af sér myndir og senda út svo allir geti séð. Áhrif þessa á ungt fólk hafa verið mikið rannsökuð og niðurstaðan boðar ekki endilega gott: Aukinn kvíði, þörf fyrir viðurkenningu og samþykki sem getur heltekið hugann um leið og afleiðingin virðist vera að sjálfsmyndin veikist.

Sara Björk var um tíma sjálf heltekin af þessari veröld og í verki sínu býður hún okkur að skoða efnið sem hún hefur sett út á Instagram og SnapChat – bæði ljósmyndir og vídeó þar sem hún hefur klippt saman 1.500 myndskeið sem hún hefur birt á samfélagsmiðlum. Við lítum flest svo á að það sem við „póstum“ á þessum miðlum eigi sér stuttan líftíma – séu bara augnabliksmyndir – en þegar myndirnar eru teknar saman eins og Sara Björk gerir sjáum við að þær eru allsherjar-portrett af manneskjunni og þær afhjúpa kannski líka mikið meira en til stóð.“

Jón Proppé

Opnunatímar:

Laugardaga og sunnudaga kl. 12.00 – 18.00

Fimmtudaga – föstudaga kl. 15.00 – 19.00

Sýningin  er í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi. Hún stendur til sunnudagsins 4. febrúar og verður hluti af Safnanótt sem haldin er á Vetrarhátíð.

Á Safnafnótt, 2. febrúar, verður opið frá 19.00 – 23.00