Vaka Njálsdóttir- Fólkið mitt

aa

Vaka Njálsdóttir, nemandi á 1. ári, átti forsíðumyndina á Vorblaði Ljósmyndaskólans að þessu sinni. Verkefnið vann hún í Vinnustofum – Mannamyndir og heitir serían Fólkið mitt.

 Við spurðum Vöku nokkurra spurninga og birtist viðtalið við hana í Vorblaði skólans.

 Af hverju ákvaðst þú að sækja nám í Ljósmyndaskólann ?

Þegar ég sat í ritnefnd Verzlunarskólablaðsins fékk að gera allt sem ég elska, taka myndir, skrifa greinar, hitta áhugavert fólk og vinna að nýjum hugmyndum. Mig langaði að halda áfram að gera það sem mér finnst skemmtilegast og gefa mér tíma til að læra þetta. Mér fannst ljósmyndun geta sameinað þessi áhugamál mín, þar sem þetta fag snýst ekki bara um að stúdera lýsingu og taka myndir, það er hægt að nota ljósmyndun á svo ótrúlega fjölbreyttan hátt.

Hvað geturðu sagt mér um námið í Ljósmyndaskólanum ?

Þetta er frábær og krefjandi skóli. Ef þú leggur allt þitt í námið þá færðu það allt til baka. Allir nemendur fá lykil að skólanum, og hann er opinn allan sólarhringinn svo þetta hefur verið mitt annað heimili í vetur. Aðstaðan, græjurnar, bækurnar, kennararnir og nándin við starfsfólk skólans fær fimm stjörnur. Ég held að það sé erfitt að finna svipað nám annarsstaðar á Íslandi, enda er þetta mjög persónulegt nám. Þetta er bæði blanda af akademísku námi og listrænni kennslu. Þar er fjölbreyttur hópur af kennurum, sem ég tel vera mjög mikilvægt fyrir þennan skóla, þar sem nemendur hafa mismunandi þarfir og óskir um framtíðina. Kennararnir hafa mismunandi hugmyndafræði og aðferðir og þannig sjáum við að listin hefur fjölbreyttar birtingarmyndir. Hér er hlustað vel á þig og þínar óskir og mikill skilningur í skólanum fyrir þinni skoðun og pælingum. Það er alltaf einhver til staðar ef eitthvað kemur uppá.

Hvað hefur breyst hjá þér varðandi ljósmyndun eftir að þú hófst nám ?

Stíllinn minn hefur breyst mikið og þróast á áhugaverðan hátt. Það er gaman að sjá hversu mikið maður hefur mótast sem listamaður á aðeins einu ári. Ég hef eytt miklum tíma í að horfa inn í sjálfa mig og reyna að átta mig á hver ég er sem listamaður og hvað ég vil. Svo eru tvær lykilsetningar sem ég hef lært í þessum skóla. “Less is more” og “Kill your darlings.”

 

/erv.