Viðtal við Helgu Nínu um árin í Ljósmyndaskólanum, verkefnið 101 SHOPKEEPERS og ýmislegt annað.

aa

Samhliða sýningu 1. árs nemenda Ljósmyndaskólans kom út blað. Það er stútfullt af myndum og viðtölum við nemendur, bæði þá sem enn eru hér við nám og þá sem eru útskrifaðir og eru að fást við ýmis spennandi verkefni í Ljósmyndun.

Viðtal við Helgu Nínu ljósmyndara sem útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum í janúar 2016 er í þessu blaði.

-Hvað varð til þess að þú fórst í Ljósmyndaskólann?

Úúú…stór spurning. Ég man að ég sá mynd af kisu á horninu á Berstaðarstræti og Skólavörðustíg. Það var auglýsingaplakat fyrir fyrsta árs sýninguna í Ljósmyndaskólanum og plakatið heillaði mig. Hafði einhvernvegin ekki vitað af skólanum áður og svo hafði ég bara samband hingað og þá varð ekki aftur snúið!

Ég hafði jú eitthvað verið að taka myndir áður en var svosem einhvern veginn hálf stefnulaus. Það að verða ljósmyndari var ekki kostur þegar ég var að alast upp… það var bara að verða læknir, lögfræðingur eða eitthvað svoleiðis. Listgreinar teljast kannski ekki heldur praktískar þannig séð heldur snúast um að fylgja hjartanu og í mínu tilfelli er ljósmyndun lífið sem þú lifir og það er þráin að segja sögur sem rekur mig áfram. Þær eru mitt “legasí,” það sem ég ætla að skilja eftir mig, framar öllu öðru… þessar sögur sem lýsa veruleika samtímans. En það var sem sé þarna sem möguleikinn opnaðist, þegar ég sá auglýsinguna um vorsýninguna og allt breyttist.

-Hvernig finnst þér námið hafa nýst þér?

Önnur stór spurning! Ég held að sterkasta verkfærið sem ég fékk í hendurnar í náminu var að kynnast þessu með hugmyndina; að verkið spretti af hugmynd og það er hún sem setur rammann um verkið og það er hún sem dregur vagninn áfram. Hugmyndin er aflið.

Annað sem ég man að laukst upp fyrir mér í náminu var að ljósmynd sé list og líka hvað list bara almennt séð er breitt svið. Allskonar hlutir, jafnvel hinir einföldustu í lífinu geta verið list. Já, það er eiginlega þetta hvað námið breikkaði sýn mína á listheiminn og opnaði augu mín fyrir því hvað hann er stór og margbreytilegur. Áður var mín hugmynd um það hvað var list miklu þrengra skilgreind.

-Hvernig myndir þú lýsa Ljósmyndaskólanum?

Kannski bara bæði það besta og það versta sem ég hef gert! … Svona nám er mikið álag og miskunnarlaus sjálfsskoðun. Það er ekki sársaukalaust að læra að taka gagnrýni heldur og það tekur á.

Svo hins vegar líka finnst mér óskaplega vænt um Ljósmyndaskólann, öll orkan sem hér er og þetta persónulega samband sem ríkir á milli allra og er í svo mörgum lögum.

Hér fékk ég fræ sem eru enn að vaxa og dafna.

– Hvað ertu að gera núna eftir útskrift – hvert stefnir þú?

Ég er að vinna áfram með lokaverkefnið mitt; 101 Shopkeepers sem átti upphaflega að vera 21 portrett en verður 101 portrett og bók!….Hvað svo verður er bara eitthvað sem ég hugsa um þegar þetta barn er komið á legg. Það þarf mikinn aga til að koma svona verki af höndum og góða þjálfun. Verkefnið hefur breytt ýmsu hjá mér t.d. tengslum mínum við miðbæ Reykjavíkur; að hafa farið á alla þessa staði, talað við allt þetta fólk og tekið öll þessi portrett. Það hefur gefið mér aðra sýn á 101.

101 Shopkeepers (2 of 21) 101 Shopkeepers (3 of 21) 101 Shopkeepers vef(16 of 21) 20160106-_DSC2227 vef  101 Shopkeepers vef(21 of 21) 101 Shopkeepersvef (9 of 21)  20160509-_DSC7197-Edit 20160425-_DSC6952-Edit 20160425-_DSC6884-Edit 20160411-_DSC6379-Edit

Verk Helgu Nínu er hægt að sjá á http://helganina.com/

/sr.