Vinnustofa – „Athafnasvæði“ nr. 1

aa

Á báðum námsbrautum í skapandi ljósmyndun taka nemendur þátt í fjölbreyttum vinnustofum á hverri önn. Vinnustofurnar eru starfsvettvangur nemenda og gestakennara sem allir eru starfandi ljósmyndarar eða myndlistarfólk. Vinna gestakennararnir með nemendum í afmarkaðan tíma að fyrirfram skilgreindum verkefnum sem eru eins ólík og þau eru mörg en eiga það sammerkt að tengjast öll listsköpun. Geta verkefnin fallið innan ramma hugmyndavinnu eða rannsókna af ýmsu tagi eða þá tengst því að verið er að fást við mismunandi aðferðir og tækni svo fátt eitt sé nefnt.

Markmið þessara vinnustofuáfanga er að að opna augu nemenda fyrir því hvernig nota má ljósmyndun á mismunandi hátt í listrænum tilgangi og að þjálfa þá í skapandi starfi með miðilinn. Ennfremur og ekki síður er markmiðið að ýta undir sköpunarkraft nemenda og að leitast við að opna þeim nýjar leiðir í persónulegri tjáningu.

Nú fyrr á þessu námsári tóku nemendur á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2,  þátt í vinnustofu undir handleiðslu Hrafnkels Sigurðssonar, myndlistarmanns. Vettvangur vinnustofunnar var netaverkstæði hér á Grandanum og yfirskrift hennar var „Athafnasvæði“ nr. 1.

Hér má sjá nokkrar myndir sem Atli Már Hafsteinsson, kennari smellti af við yfirferð og lokaskil verkefna í vinnustofunni en auk Hrafnkels tók Haraldur Jónsson myndlistarmaður einnig þátt í yfirferð með nemendum.

Eins og sjá má á myndunum, voru verkefni nemenda mismunandi, úrlausnir þeirra fjölbreyttar og umhverfið einkar verklegt.

     

/sr.