Námslýsing

Námbraut í skapandi ljósmyndun 1. 1. önn 2. önn
Námbraut í skapandi ljósmyndun 2. 1. önn 2. önn 3. önn

Námbraut í skapandi ljósmyndun 1. 1. önn - 30 fein

720 námsstundir. Fyrirlestrar/málstofa, sýnikennsla, einkatímar, hóptímar og sjálfstæð verkefnavinna undir handleiðslu. 387 stundir. Eigin vinna 333 stundir.

Helstu námsþættir og áherslur

Farið er í þætti er varða myndavélina sem verkfæri ljósmyndarans, s.s. ljósop og hraða og önnur tæknileg atriði varðandi myndatökur. Kennd eru grundvallaratriði mynduppbyggingar og notkun ljóss við myndsköpun. Nemendur læra að vinna í myndveri (stúdíói) og meðhöndlun tilheyrandi tækjabúnaðar. Þeir læra einnig framköllun á svarthvítum filmum, stækkun og prentun af filmum. Nemendur læra grunndvallarþætti stafrænnar ljósmyndunar, flokkun og skipulag myndasafns síns og helstu þætti stafrænnar myndvinnslu. Þeir læra að vinna myndir fyrir prentun og fá kennslu í því að prenta á prentara skólans. Nemendur eru kynntir fyrir grunnhugtökum í hugmyndavinnu og hagnýtum atriðum varðandi ritun á texta, heimildanotkun og hvernig beita skal heimildatilvísunum. Farið er í sögu ljósmyndunar frá upphafi og fram yfir miðja 20. öld, í íslensku og alþjóðlegu samhengi, með tilliti til tengsla við hugmyndastrauma, liststefnur, tækniþróun og samfélagshræringar.

Í áföngunum öllum er áhersla á að nemendur leysi verkefni, kynni þau og setji í samhengi við kenningar, hugmyndir eða aðferðir. Nemendur eru hvattir til að þróa með sér þekkingu á mismunandi aðferðum við myndbyggingu og úrvinnslu verkefna og til þess að gera tilraunir með persónulega beitingu ljósmyndamiðilsins. Á önninni taka nemendur þátt í tveimur vinnustofum þar sem þeir vinna undir handleiðslu listafólks í afmarkaðan tíma.

 

Markmið í lok annar:

 • Að nemendur hafi lært að nota ljósmyndavélina og nýta eiginleika hennar.
 • Að nemendur hafi öðlast þekkingu og færni í grunnþáttum ljósmyndunar og geti beitt þeim við eigin vinnu og sköpun.
 • Að nemendur hafi náð tökum á vinnu í myndveri og umgengni við tæki og tól.
 • Að nemendur hafi lært klassíska/hefðbundna aðferð við framköllun á svarthvítum filmum og náð valdi á því að stækka ljósmyndir á pappír.
 • Að nemendur kunni skil á grunnþáttum stafrænnar myndvinnslu, flokkun og geymslu stafrænna ljósmynda, hafi þekkingu til að vinna myndir fyrir prentun og kunni á prentara skólans.
 • Að nemendur hafi fengið æfingu í að lesa ljós og átti sig á því hvernig unnt er að nýta það til mismunandi mynduppbyggingar og til að ná fram áhrifum í myndsköpun.
 • Að nemendur hafi náð tökum á aðferðum við hugmyndavinnu, hafi þjálfast í notkun slíkra vinnubragða og geti nýtt þekkinguna við undirbúning og útfærslu eigin verkefna.
 • Að nemendur hafi náð tökum á því að skrifa stutta ritgerð, að afla sér heimilda og að nota heimildatilvísanir.
 • Að nemendur kunni skil á helstu straumum og stefnum í ljósmyndasögu 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. og tengslum ljósmyndunar við listheim og samfélagsþróun þess tímabils.
 • Að nemendur hafi hlotið innsýn í skapandi möguleika ljósmyndunar.

 

Áfangar (smelltu til að sjá nánar)

RÝRÆ4RR02 Að rýna og ræða, 2 Fein

 

Markmið áfangans er að nemendur kynni sér ákveðna fyrirfram valda texta sem allir fjalla um eða snerta ljósmyndamiðilinn á einhvern máta; ritgerðir um kenningar, hugmyndasögu, heimspeki eða ævisögur merkra listamanna. Tilgangurinn er að þjálfa nemendur í að ræða innihald texta, að skiptast á skoðunum og rökræða um þá en ekki síst að hvetja þá til að tengja innihald þessara texta öðrum þáttum námsins.

Í lok áfangans er gert ráð fyrir því að nemendur hafi hlotið þjálfun í að lesa, fjalla um og rökræða ólíka texta sem allir hafa snertiflöt við ljósmyndun.

Málstofa, greinargerð, verkefni: 10 stundir.

Eigin verkefnavinna: 38 stundir.

Námsmat: Verkefni, virkni og þátttaka í tímum.

Skyldulesefni:

 • Barthes, Roland: Camera Lucida: Reflectionson Photography. Hill&Wang.
 • Rappaport, Helen&Watson, Roger: Capture The Light: A True Story of Genius, Rivalry and the Birthin Photography. St. Martin´s Press.

 

SKRI4RI01 Ritgerðir, heimildanotkun og frágangur ritaðra verkefna, 1 Fein.

 

Markmið áfangans er að kynna fyrir nemendum þau grundvallaratriði sem gott er að hafa í huga við textaskrif af ýmsum toga. Farið er yfir uppbyggingu ritgerða, heimildanotkun, heimildatilvísanir og frágang á heimildum í heimildalista. Nemendur hljóta þjálfun í þessum þáttum og þess krafist að þeir beiti vinnubrögðunum við úrlausnir allra skriflegra verkefna, allra áfanga, út námstímann

Í lok áfangans eiga nemendur að hafa hlotið þjálfun í að skrifa stutta texta um afmarkað efni og náð tökum á því að beita heimildum og ganga frá heimildalista og tilvísunum.

Fyrirlestrar, verkefni: 10 stundir.

Eigin verkefnavinna: 14 stundir.

Námsmat: Verkefni.

Ráðlagt lesefni:

 • Ingibjörg Axelsdóttir og Þórunn Blöndal: Handbók um ritun og frágang. Mál og menning.
 • Zanot, Francesco&Soth, Alec: Ping Pong Conversations. Contarasto.

VINF4VI04 Vinnustofur, 4 Fein.

Vinnustofurnar eru starfsvettvangur nemenda og gestakennara sem allir eru starfandi ljósmyndarar/listamenn. Vinna þeir með nemendum í afmarkaðan tíma. Í vinnustofum eru tekin fyrir ýmis verkefni sem tengjast listsköpun, s.s. hugmyndavinna, rannsóknir og mismunandi aðferðir og tækni.

Tvær vinnustofur eru í þessum áfanga sem hvor um sig er 2 Fein.

Vinnustofukennarar ráðleggja lesefni og annað námsefni hverju sinni sem hentar heildarviðfangsefni vinnustofunnar og/eða verkefnum einstakra nemenda.

Markmið áfangans er að að opna augu nemenda fyrir því hvernig nota má ljósmyndun á mismunandi hátt í listrænum tilgangi og að þjálfa þá í skapandi starfi með miðilinn. Enn fremur er markmiðið að ýta undir sköpunarkraft nemenda og að leitast við að opna þeim nýjar leiðir í persónulegri tjáningu.

Í lok áfangans hafa nemendur kynnst því að starfa með ólíkum listamönnum. Þeir hafa kynnst mismunandi hugmyndum, vinnubrögðum og aðferðum í listsköpun og aukið við skilning sinn á fjölþættri notkun ljósmyndamiðilsins til tjáningar og sköpunar.

Vinnustofurnar eru fjölbreyttar að formi og geta samanstaðið af: fyrirlestrum, hóptímum, einkatímum, sýnikennslu, vettvangsferðum og verklegum æfingum: 60 stundir.

Eigin verkefnavinna: 36 stundir.

Námsmat: verkefni, vinnubækur og virkni í tímum.

LJÓS4LH02 Myndavélin – ljósop, hraði og myndsköpun, 2 Fein.

Markmið áfangans er að nemendur verði færir um að beita ýmsum tæknilegum þáttum ljósmyndamiðilsins markvisst við sköpun eigin myndverka. Kanna þeir eiginleika mismunandi gerða myndavéla og hvernig það að beita ólíkum myndavélum, mismunandi stillingum og linsum hefur áhrif  í myndsköpun.

Skoðaðir eru mismunandi eiginleikar 35 mm  og „mediumformat“ filmuvéla sem og eiginleikar stafrænna myndavéla. Áhersla er lögð á að nemendur öðlist skilning á grundvallar tæknilegum þáttum eins ljósopi, hraða, mismunandi ljómnæmi („iso“-stillingum) og samspili slíkra þátta við myndsköpun og kennt er á notkun ljósmæla. Í áfanganum skila nemendur ýmsum verklegum æfingum og verkefnum og er við skil ítarlega farið yfir þau með áherslu á að skoða og ræða þá tækni sem notuð var við lausn verkefnisins í hverju tilfelli.

Í lok áfangans eiga nemendur að hafa rannsakað ólíkar gerðir filmuvéla sem og stafrænar myndavélar, eiga að þekkja ólíka eiginleika þeirra og helstu möguleika sem í þeim felast. Þeir eiga að kunna að nota ljósmæla og að nýta sér ljósop og hraða til að ná tilætluðum áhrifum við myndsköpun.

/málstofa, verkefnavinna undir handleiðslu: 30 stundir.

Eigin verkefnavinna: 18 stundir.

Námsmat: Verkefni, vinnubók.

Skyldulesefni:

 • London, Barbara &Upton, John og fleiri: Photography. Pearson.

Ráðlagt lesefni:

 • Caroll, Henry: Read This if you Want to Take Great Photographs. Laurence King Publishing.

LJÓS4SF03 Svarthvít filmuframköllun og stækkun, 3 Fein.

Markmið áfangans er að nemendur læri að framkalla svarthvítar filmur, æfi sig í að lesa í filmur og gera kontakta. Í framhaldinu læra þeir grundvallar handtök þess að stækka ljósmyndir af filmu á pappír. Farið er yfir framköllunaraðstöðu, stækkara og annan búnað myrkraherbergis sem og umgengni við tæki og aðstöðu. Nemendur framkalla filmur og stækka ljósmyndir af filmu, fyrst undir handleiðslu og síðar sjálfir og fá þá aðstoð við að leysa þau vandamál sem upp koma í myrkraherberginu. Eins fá nemendur kynningu á hvernig frágangi, skipulagi og geymslu á filmum er best háttað. Kennd eru nokkur helstu grundvallaratriði þess hvernig handprentaðar myndir eru meðhöndlaðar, skornar, settar upp á karton og gengið frá þeim í ramma.

Nemendur vinna að eigin vinnubók jafnt og þétt yfir önnina.

Í lok áfangans eiga nemendur að kunna að framkalla filmur og meðhöndla þær og geyma. Þeir þurfa að hafa náð nokkrum tökum á að stækka svarthvítar ljósmyndir á pappír sem og frágangi og uppsetningu slíkra mynda. Þeir eiga að kunna að umgangast tæki og tól myrkraherbergis og framköllunaraðstöðu.

Fyrirlestrar, handleiðsla í hóp og í einkatímum, verkefni og vinnubók: 40 stundir

Eigin verkefnavinna: 32 stundir.

Námsmat: Verkefni og vinnubók.

Skyldulesefni:

 • London, Barbara &Upton, John og fleiri: Photography. Pearson.
 • Bartlett, Larry&Tarrant, Jon: Black&White: Photographic Printing Workshop. Silver Pixel Pr.

Ráðlagt lesefni:

 • Adams, Ansel:The Negative: Ansel Adams Photography, Book 2. Ansel Adams.
 • Adams, Ansel: The Print: Ansel Adams Photography, Book 3. Little Brown.

LJÓS4MF02 Myndatökur, myndbygging og formfræði, 2 Fein.

Markmið áfangans er að kenna hvernig val myndefnis, myndataka og sjónarhorn við töku hefur áhrif á merkingu ljósmyndar og frásagnarmáta hennar. Skoðað er hvernig hægt er að túlka sama viðfangsefnið á ólíka vegu með því að breyta sjónarhorni eða því hvernig myndflöturinn er mótaður við myndatökuna. Nemendur kynnast helstu hugmyndum og kenningum um myndbyggingu, svo sem um gullinsnið, hlutföll, styrkleika og staðsetningu aðalatriða á myndfleti. Ræddar eru spurningar varðandi reglur um form og hlutföll í tvívíðum myndverkum af öllu tagi og hvort nauðsynlegt sé að hafa náð tökum á hugmyndum/lögmálum um myndbyggingu til að geta brotið þær. Í fyrirlestrum eru tekin margvísleg dæmi úr listasögunni um meðvitaða notkun á myndrænni uppbyggingu og hvernig myndhöfundar öðlast tök á myndmáli með aukinni meðvitund um form og byggingu. Bent er á mismunandi nálgun listamanna við tilteknar grunnhugmyndir og ólíkar leiðir þeirra í formrænni uppbyggingu. Nemendur eru hvattir til að tileinka sér þekkingu á mismunandi aðferðum við myndbyggingu og úrvinnslu verkefna og að þróa með sér persónulegan stíl.

Nemendur velja myndir og skýra byggingu þeirra út frá þeim kenningum og aðferðum sem fjallað hefur verið um í áfanganum og kynna verkefni sitt með stuttum fyrirlestri fyrir samnemendum og kennara.

Kennari leggur fram og bendir á ýmis námsgögn.

Í lok áfangans eiga nemendur að þekkja helstu aðferðir við mynduppbyggingu, mikilvægi sjónarhorns og nýtingu myndflatar og að geta sýnt fram á persónulega beitingu þeirra þátta við sköpun myndefnis.

Fyrirlestrar/málstofa, vinna undir handleiðslu: 18 stundir.

Eigin verkefnavinna: 30 stundir.

Námsmat: Vinnubók, ritgerð og verkefni.

Ráðlagt lesefni:

 • Anthes, Bill&Modrak, Rebekah: Reframing Photography: Theory and Practice.
 • Fink, Larry: Larry Finkon Composition and Improvisation.

SLFM4SM06 Stafræn myndvinnsla, flokkun og umsýsla gagna, 1. hluti, 6 Fein.

Markmið áfangans er að nemendur fái innsýn í stafræna ljósmyndun og stafrænar myndavélar. Áhersla er lögð á að nemendur kynnist helstu stillingum, hugtökum og eiginleikum stafræna umhverfisins og tileinki sér ákveðið vinnuferli. Einnig að þeir hljóti þjálfun í helstu grundvallarþáttum í umsýslu stafrænna gagna; flokkun þeirra og geymslu. Enn fremur eru kynnt grundvallaratriði litstýringar almennrar myndvinnslu og prentunar en seinni hluta annar fá nemendur kennslu í undirbúningi myndefnis til prentunar og læra notkun bleksprautuprentara. Farið er í mismunandi pappírsgerðir, val á pappír og önnur hagnýt atriði og vinnubrögð er varða prentun. Nemendur fá tilsögn í grundvallaratriðum filmuskönnunar.

Í lok áfangans eiga nemendur að kunna á grunnstillingar stafrænna myndavéla og grundvallaratriði í myndatökum með slíkum vélum. Þeir eiga að hafa tileinkað sér aðferðir til að halda utan um stafrænt myndasafn sitt með skipulögðum hætti, að hafa kynnst helstu grunnþáttum í litstýringu og myndvinnslu stafrænna ljósmynda. Þeir eiga að kunna verkferli við stafræna útprentun; geta undirbúið myndefni til prentunar, prentað út og skannað filmur.

Fyrirlestrar, sýnikennsla og vinna undir handleiðslu: 80 stundir.

Eigin verkefnavinna: 64 stundir.

Námsmat: Verkefni og próf.

Skyldulesefni:

 • Evans, John & Straub, Katrin: Adobe Photoshop Lightroom Classic CC; Classroom in að Book. Adobe Press.

Ráðlagt lesefni:

 • Snider, Lesa: Lightroom CC and Photoshop CC for Photographers; Classroom in a book. Adobe Press.

LJSA4LS02 Ljósmyndasaga 1. hluti, 2 Fein.

Markmið áfangans er að fara yfir sögu ljósmyndunar frá upphafi og fram yfir miðja 20. öld, bæði á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi. Nemendur kynnast ólíkum straumum og stefnum í ljósmyndun og hvernig þær tengjast hræringum í listheimi, tækniveröld og samfélagi á hverjum tíma.

Nemendur velja sér ljósmyndara, þurfa að afla sér heimilda, vinna um hann ritgerð og kynna efni hennar fyrir samnemendum í málstofu. Einnig vinna nemendur ljósmyndaverkefni í anda valins ljósmyndara úr ljósmyndasögunni.

Í lok áfangans eiga nemendur að kunna skil á helstu áhrifavöldum í ljósmyndasögunni, tengslum hennar við aðra listsköpun og samfélag og þekkja mismunandi áherslur eða stefnur í ljósmyndun á ólíkum tímabilum.

Fyrirlestrar, málstofa, vinna undir handleiðslu: 34 stundir.

Eigin verkefnavinna, gagnaöflun og ritgerð: 14 stundir.

Námsmat: Ritgerð, fyrirlestur, verkefni.

Ráðlagt lesefni:

 • Goldberg, Vicki, ritstjóri: Photography in Print: Writings from 1816 to the Present. University of New Mexico Press.
 • Inga Lára Baldvinsdóttir: Ljósmyndarar á Íslandi 1845–1945. Þjóðminjasafn Íslands.
 • Marien, Mary Warner: Photography: A Cultural History. Pearson.
 • Rosenblum, Naomi: World History of Photography. Abbeville Press.
 • Trachtenberg, Alan, ritstjóri: Classic Essays on Photography. Leete´s Island Books.

STUD4LS06 Að lesa í og skapa ljós, 1. hluti, 6 Fein.

Markmið áfangans er að skoða eitt megin viðfangsefni ljósmyndarans – ljósið. Nemendur rannsaka virkni þess og á hvern máta lýsing getur breytt afstöðu til myndefnis og túlkun á ljósmyndinni. Nemendur skoða mismunandi ljósgjafa, fá æfingu í að lesa í ljós, ekki síst náttúrulegt og óbeint ljós og vinna með það á fjölbreyttan hátt. Áhersla er lögð á að þeir hljóti æfingu í að nýta mismunandi ljósgjafa til mynduppbyggingar og til að ná fram ólíkum áhrifum í myndsköpun.

Nemendur kynnast vinnu í myndveri (stúdíói); farið er yfir aðferðir við lýsingu og vinnubrögð sem þar gilda. Unnið er með mismunandi tegundir lýsinga og kappkostað að kynna nemendum ólíkar aðferðir við að nota ljós. Þeir eru kynntir fyrir helstu lykilhugtökum í stúdíólýsingu sem þeir þurfa að kunna skil á og fá kynningu á notkun ólíkra tegunda myndavéla í myndveri, m.a. „medium format“ véla.

Í lok áfangans eiga nemendur að hafa náð tökum á grundvallarþáttum þess að vinna í myndveri og að meðhöndla tilheyrandi tækjabúnað. Þeir eiga að kunna helstu aðferðir við lýsingu í myndveri, kunna að notfæra sér náttúrulegt ljós og mismunandi ljósgjafa til myndsköpunar og hafa náð nokkrum tökum á að blanda saman ólíkum ljósgjöfum við myndatökur.

 

Fyrirlestrar, hóptímar, vinna undir handleiðslu: 72 stundir.

Eigin verkefnavinna: 72 stundir.

Námsmat: Verkefni og vinnubók.

 

Skyldulesefni:

 • Fancher,Nick:Studio Anywhere: A Photographers´s Guide to Shooting in Unconventional Locations. Peachpit Press, Pearson.

Ráðlagt lesefni:

 • Hunter, Fill&Biver, Steven&Fuqua, Paul:Light Science&Magic: An Introduction to Photographic Lightning. Focal Press.

 

HUGM4HV02 Aðferðir við listsköpun – hugmyndavinna, 1. hluti, 2 Fein

Markmið áfangans er að kynna nemendur fyrir grundvallarþáttum sem snúa að því að vinna með hugmynd og það að þroska hana og næra. Nemendum eru kynntar aðferðir við vinnu með hugmyndir og skipulag slíkrar vinnu, Þeir fá þjálfun í að beita ólíkum aðferðum við að halda utan um hugmyndir sínar og þróa þær en einnig að ræða um hugmyndir og að kynna þær fyrir öðrum.

Áhersla er lögð á að nemendur rannsaki einnig það hvernig hægt er að sækja innblástur til listsköpunar og skoði persónulega nálgun á það viðfangsefni.

 

Í lok áfangans eiga nemendur að hafa áttað sig á gildi markvissrar vinnu við að þróa hugmyndir, þekkja leiðir til að þorska þær og kunna skil á mismunandi aðferðum við hugmyndavinnu.

Fyrirlestrar, vinna undir handleiðslu,einkatímar: 33 stundir.

Eigin verkefnavinna: 15 stundir.

Námsmat: Vinnubók, verkefni og virkni í tímum.

 

 

Ráðlagt lesefni:

 • Simmons Mike: Making Photographs, Planning, Developing and Creating Orginal Photography, Bloomsbury Publishing.
 • Jaeger, Anne-Celine: Image Makers, Image Takers.Thames&Hudson.
 • Bussard A.Katherine: Sothestory goes, Yale University Press.
 • Steingrímur Eyfjörð: Handbók í hugmyndavinnu. Háskólaprent.

Markmið skólans

er aÐ kenna ljósmyndun, aÐ auka veg ljósmyndunar á Íslandi og valmöguleika í menntun ljósmyndara meÐ listsköpun aÐ leiÐarljósi.

Námslán

LánasjóÐur íslenskra námsmanna lánar aÐ fullu fyrir skólagjöldum og framfærslu.

Instagram#ljosmyndaskolinn